139. löggjafarþing — 66. fundur,  27. jan. 2011.

HS Orka, stefna og stjórnsýsla ríkisstjórnarinnar í málinu.

[15:52]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Ég þakka aðstoðina. Það er hiti í mönnum hér eftir daginn, enda er þetta búinn að vera merkisdagur.

Það sem um er að ræða í þessu máli er með hvaða hætti hægt sé að frumnýta þessar svokölluðu náttúruauðlindir sem við höfum, jarðvarmann, vatnið, fiskinn í sjónum. Það er ekki hægt að bera saman jarðvarmaauðlind og fiskinn í sjónum, það er ekki við hæfi að tala um að það sé verið að stofna hér ríkisútgerðir aftur vegna þess að það á hugsanlega að færa jarðvarmaauðlindina í eigu ríkisins. Það er ekki sambærileg náttúruauðlind, það er einfaldlega til að slá ryki í augu fólks að halda uppi slíkri umræðu.

Það sem menn þurfa að gera er að axla pólitíska ábyrgð á því klúðri sem varð þegar þessu var leyft að fara í einkaeigu. Þar eiga Vinstri grænir og Samfylkingin ekki síður hlut að máli. Sem betur fer heyrist mér sem verið sé að reyna að vinda ofan af því. Það er gott.

Þetta snýr hins vegar að fleiru. Stóra myndin er hvort það sé yfir höfuð eðlilegt að einhver einkaaðili geti átt náttúruna. (Gripið fram í: Þúsund ár.) Samkvæmt þinglýsingarskjölum er einhver maður sem á Esjuna — er það eðlilegt? Ef það sest lóa á lóðina hjá mér á ég hana samkvæmt þinglýsingarskjölum. Ef það væri rjúpa gæti ég selt einhverjum öðrum manni veiðileyfi á hana. Þetta er fáránlegt fyrirkomulag. Það þarf að hugsa málið upp á nýtt, bæði hvað varðar land, loft og lög. [Kliður í þingsal.]

Þetta er stóra myndin sem við þurfum að takast á við, þ.e. hver eigi náttúruna. (SDG: En húsin?) Já, já, húsin, það er allt annað mál, þú hlýtur að geta gert greinarmun á því, hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, hver á náttúruna og hver á fasteignirnar. (Gripið fram í.) Það er munur á fasteignum og náttúruauðlindum. Ég sé að hagsmunaaðilar auðlinda (Forseti hringir.) hafa náð góðu taki á formanni Framsóknarflokksins, það er ágætt að það komi (Forseti hringir.) grímulaust fram. Það kom hér fram í umræðunni áðan líka að …