139. löggjafarþing — 66. fundur,  27. jan. 2011.

framkvæmd þingsályktunar um að Ísland skapi sér afgerandi lagalega sérstöðu varðandi vernd tjáningar- og upplýsingafrelsis, munnleg skýrsla mennta- og menningarmálaráðherra.

[16:35]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð hér í lok þessarar umræðu, lít svo á að a.m.k. þeir hv. þingmenn sem hafa talað séu mjög fylgjandi því að áfram verði unnið að málinu af fullum krafti. Ég legg líka áherslu á að ýmislegt er hægt að gera strax. Núna er fjölmiðlafrumvarp til umfjöllunar í hv. menntamálanefnd þar sem m.a. er kveðið á um vernd heimildarmanna og fleiri réttarbætur fyrir blaðamenn sem getur skipt máli þannig að ýmislegt er hægt að gera strax. Það þarf líka að skoða upplýsingalögin sem eru að koma fram og skoða þau sérstaklega út frá þessari þingsályktunartillögu. Það er því margt hægt að gera strax en það er mikilvægt að við náum heildarmyndinni, ekki síst út af þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem ég nefndi áðan.

Síðan tek ég undir það sem nokkrir hv. þingmenn hafa rætt og nefnt hér, að setja inn kostnaðargreiningu og taka fram í nýju frumvarpi til laga um þingsköp. Ég held að það sé liður í því að styrkja sjálfstæði þingsins, þ.e. að mál sem þingmenn leggja fram í stjórn eða stjórnarandstöðu, almennir þingmenn úr öllum flokkum, og þingsályktunartillögur séu kostnaðarmetin. Það sýnir í raun og veru alvöru málsins, að fólki sé alvara með því að samþykkja slíkar tillögur eða frumvörp og að ekki sé ætlunin að láta þær eða þau daga uppi af því að fjármunir fylgja ekki. Ég held að það sé liður í því að styrkja sjálfstæði þingsins, sem okkur verður oft mjög tíðrætt um í þessum sal, að vanda til vinnubragða á þessum vettvangi.

Að öðru leyti mun ég halda áfram að vinna að málinu eins og ég fór yfir hér í byrjun. Ég þakka þeim hv. þingmönnum sem tóku þátt í umræðunni.