139. löggjafarþing — 66. fundur,  27. jan. 2011.

farþegagjald og gistináttagjald.

359. mál
[17:15]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Það gleður mig að menn hafa almennt skilning á því að hér er um framfaramál að ræða. Ég lít ekki á þetta sem eiginlega skattlagningu þó að ég hefði reyndar ekki tjáð mig í umræðu þar um um áramótin þar sem menn lögðu þetta að jöfnu við skattheimtu í ríkissjóð og fóru mikinn sumir hverjir. Hér er um að ræða lögverndaða innheimtu, tekjustofn fyrir greinina sjálfa sem er mjög brýnt að hún komi sér upp. Ég er eindregið þeirrar skoðunar og ég segi það líka sem gamall ferðamálaráðherra að langaffarasælast sé að gera það á sameiginlegum grunni, það verði minnstur kostnaður því samfara og þar með þagnar vonandi sú umræða að þetta eigi að leysa með því að selja inn á einstaka staði, jafnvel tilviljanakennt, og afgangi mæti þá þeir staðir þar sem slíkri innheimtu er erfitt að koma við o.s.frv.

Varðandi farþegagjaldið var legið talsvert yfir því hvaða grunnur að því væri skynsamlegastur og niðurstaðan varð sú eftir allmikla skoðun að það væri eðlilegt af ýmsum ástæðum að taka nokkurt mið af lengd ferðarinnar og að ekki væri sanngjarnt að hafa það alveg núll fyrir stystu ferðirnar. Með þessu móti ber innanlandsflugið mjög væga gjaldtöku, sem varla verður tekið eftir, en millilandaflugið og lengstu flugleiðirnar nokkru meira. Það mætir líka því að erlendir ferðamenn koma náttúrlega að breyttu breytanda meira gagngert til að skoða landið en þeir sem ferðast hér í innanlandsflugi þó að þeir noti það vissulega líka. Eins er hitt að fargjöld eru hlutfallslega dýrari á styttri flugleiðum þannig að það má færa fyrir því ýmis rök að þetta sé eðlileg útfærsla á gjaldinu.

Að sjálfsögðu getur hv. efnahags- og viðskiptanefnd, sem mun leggja gjörva hönd á þetta mál eins og öll önnur, skoðað þetta. Að baki liggur nokkuð vönduð skoðun á því hvernig skynsamlegast og eðlilegast sé að koma þessu fyrir. (Forseti hringir.)