139. löggjafarþing — 67. fundur,  31. jan. 2011.

málefni íslenskra námsmanna í Svíþjóð.

[15:10]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Það er til milliríkjasamningur milli Íslands og Svíþjóðar, norrænn samningur um félagsleg réttindi, og samkvæmt honum á fólk sem flytur á milli landa að njóta fullra félagslegra réttinda.

Nú hafa borist fréttir af því að íslenskir námsmenn í Svíþjóð hafi sumir lent í því að fá ekki félagslegar bætur, þ.e. fæðingarorlof og húsaleigubætur. Þetta hefur verið kært til viðeigandi stofnana í Svíþjóð og mér skilst að von sé á svörum jafnvel í dag frá „försäkringskassan“ í Svíþjóð. Ég vil fá að spyrja hæstv. velferðarráðherra út í þessi mál af því að ég tel að þau séu nokkuð alvarleg. Á norrænum vettvangi hefur lengi verið unnið að því að tryggja félagsleg réttindi á milli landa og reynt að koma í veg fyrir svokallaðar landamærahindranir þannig að fólk eigi sömu réttindi á milli landa. Þessi samningur sem er okkar á milli hefur verið virtur af Norðurlöndunum en nú virðist vera komið upp í Svíþjóð eitthvert mál sem þarf að leysa.

Ég vil þess vegna spyrja hæstv. velferðarráðherra: Ef það kemur neikvætt svar frá Svíunum og námsmenn okkar njóta ekki þeirra réttinda sem við teljum að þeir eigi að njóta í Svíþjóð, hvað munu stjórnvöld þá gera? Verður gripið til einhverra sérstakra aðgerða gagnvart Svíunum eða hvaða ferli fer í gang? Ég tel mjög mikilvægt að Svíar virði eins og önnur norræn ríki þá samninga sem hafa verið gerðir og að íslenskir námsmenn á Norðurlöndunum njóti þeirra réttinda sem við teljum að þeir eigi að njóta. Þess vegna vil ég gjarnan heyra hvort hæstv. velferðarráðherra hefur kynnt sér þessi mál og hvort hæstv. ráðherra sé undirbúinn með eitthvert plan ef svörin verða neikvæð. Ef svörin verða jákvæð er málið bara leyst og námsmenn okkar fá sín réttindi eins og (Forseti hringir.) vera ber.