139. löggjafarþing — 67. fundur,  31. jan. 2011.

málefni íslenskra námsmanna í Svíþjóð.

[15:14]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka þessi svör. Ég veit að það er fylgst með þessu máli í utanríkisráðuneyti og velferðarráðuneyti og hjá Sjúkratryggingum Íslands af því að það er nokkuð alvarlegt. Það er líka að störfum nefnd sem vinnur gegn landamærahindrunum. Þar eigum við Íslendingar fulltrúa, Guðríði Sigurðardóttur, fyrrum ráðuneytisstjóra í menntamálaráðuneytinu. Það eru margir að skoða þetta mál en ég tel mjög brýnt að hæstv. velferðarráðherra kynni sér það mjög vel og undirbúi sig sérstaklega ef við fáum svör sem okkur líka ekki. Þá verður að grípa til aðgerða, taka málið upp á vettvangi ráðherra, sem sagt hinum pólitíska vettvangi, til lausnar. Ég tel alveg ómögulegt að námsmenn okkar búi ekki við eðlileg félagsleg réttindi þegar þeir fara til Norðurlandanna í nám. Ég hvet hæstv. velferðarráðherra (Forseti hringir.) sérstaklega til að fylgjast grannt með málinu og vera tilbúinn með plön ef svörin verða neikvæð.