139. löggjafarþing — 67. fundur,  31. jan. 2011.

ástandið í Egyptalandi.

[15:17]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Frú forseti. Hreyfingin óskar eftir opinberum stuðningi utanríkismálanefndar sem og utanríkisráðherra við lýðræðislega kröfu almennings um breytingar í Egyptalandi. Almenningur í Egyptalandi hefur ákveðið að taka örlögin í eigin hendur og feta í fótspor Túnisbúa. Undanfarna daga hefur almenningur staðið fyrir kröftugum mótmælum gegn forseta landsins, Mubarak.

Frú forseti. Egyptar hafa um langa hríð búið við ómannúðlegar aðstæður. Þar eru grundvallarmannréttindi, svo sem málfrelsi, trúfrelsi og félagafrelsi, fótumtroðin. Aðgangi almennings að upplýsingum hefur verið lokað. Aðgengi að netinu og GSM-símasambandi hefur verið rofið. Fleiri hundruð mótmælendur hafa glatað lífi sínu og þúsundir slasast. Stjórnvöld hafa skipað öryggissveitum og lögreglu að skjóta á mótmælendur sem virða ekki útgöngubann yfirvalda. Þrátt fyrir það streyma tugþúsundir manna út á göturnar í þessum töluðu orðum.

Í landinu á að ríkja forsetaræði en herlögin sem komið var á fyrir meira en 30 árum hafa aldrei verið felld úr gildi. Pyndingar eru daglegt brauð auk þess sem lögreglan í landinu beitir miklu harðræði til að bæla niður andstöðu við forsetann. Það er skylda okkar að styðja baráttu Egypta fyrir betra lífi. Við skorum á ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur að krefjast þess að stjórnvöld í Egyptalandi hlusti á kröfur almennings. Auk þess skorum við á ríkisstjórnina að fordæma harðlega ritskoðun, glæpsamlegt harðræði og frelsisskerðingu Mubaraks gegn almennum borgurum í landinu.

Í gær lokuðu yfirvöld landsins á útsendingar Al-Jazeera í Kaíró en sú sjónvarpsstöð hefur gefið greinargóða mynd af ástandinu, bæði fyrir Egypta í Egyptalandi og okkur hin. Það er skýlaust brot á upplýsingafrelsi sem ber að fordæma. Mig langar að spyrja hæstv. utanríkisráðherra hvort hann hafi sent frá sér yfirlýsingu um ástandið sem endurspegli fordæmingu á hörku yfirvalda í Egyptalandi gagnvart mótmælendum eða hvort hann hyggist gera það.