139. löggjafarþing — 67. fundur,  31. jan. 2011.

stjórnlagaþing og hlutverk Hæstaréttar.

[15:29]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég er á svipuðum stað og sá hv. þingmaður sem spurði á undan því að ég ætla að spyrja hæstv. innanríkisráðherra um nokkuð sem kallað er stjórnlagaþingsklúðrið svona manna á milli. Eins og við vitum lagði allsherjarnefnd til að Hæstiréttur mundi fjalla um kærur sem upp kæmu um þetta þing og það var gert. Niðurstaðan var að kosningin væri ógild eins og við þekkjum.

Hæstv. innanríkisráðherra, sem fer með dómsmálin, hefur gagnrýnt niðurstöðuna og sagt að hún hafi komið sér á óvart í ljósi almannahagsmuna. En að auki sagði hæstv. ráðherra í viðtali við Morgunblaðið um helgina, með leyfi forseta:

„Það verður okkar hlutskipti núna að taka á þeim annmörkum sem voru í lögunum um framkvæmd þessara kosninga. Það snýr þá líka að því að skýra hlutverk Hæstaréttar …“

Virðulegi forseti. Ég vissi ekki til að það væri eitthvað óljóst hvert væri hlutverk Hæstaréttar. Nú er hér um að ræða hæstv. innanríkisráðherra sem fer með dómsmálin þannig að við hljótum að hlusta þegar hann talar með þessum hætti. Það væri því við hæfi, virðulegi forseti, að hæstv. ráðherra útskýrði fyrir okkur hvað sé svona óskýrt hjá Hæstarétti. Er ráðherra með eitthvað sérstakt í huga sem Hæstiréttur útskýrði ekki? Ég held að það sé afskaplega mikilvægt að hæstv. ráðherra tali skýrt um þetta þannig að við þurfum ekki að leita langar leiðir til að fá skýringar frá honum um hlutverk Hæstaréttar.