139. löggjafarþing — 67. fundur,  31. jan. 2011.

staða innanlandsflugs.

[15:54]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég tek undir með hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni, það er mjög mikilvægt að halda úti öflugu innanlandsflugi. Hins vegar er flugið í samkeppni við einkabílinn og mjög miklar úrbætur hafa verið gerðar á samgöngumálum vegna bílaumferðar. Það er búið að byggja upp vegi, fækka einbreiðum brúm, gera ýmis jarðgöng og bæta samgöngukerfið mjög verulega gagnvart einkabílnum. Ég vil líka nefna að það eru komnar GSM-tengingar nánast um allt land, a.m.k. á þjóðvegi 1, þannig að það verður samkeppnisforskot fyrir einkabílinn. Það eru betri samgönguæðar og þegar fólk keyrir um landið getur það næstum unnið í bílunum í gegnum GSM-síma, að sjálfsögðu með handfrjálsum búnaði, ég tek það fram.

Það er því margt mjög gott sem hefur verið gert fyrir einkabílinn og samkeppnisforskot hans hefur aukist. Hins vegar ber að undirstrika mikilvægi innanlandsflugsins. Minnst hefur verið á þjónustu við sjúklinga, það er mjög mikilvægt að fólk geti sótt þjónustu með innanlandsflugi til Reykjavíkur þar sem hún er sérhæfð, að það þurfi ekki ávallt að fara með einkabíl. Það eiga ekki allir einkabíl þannig að það er mjög mikilvægt að við styðjum við bakið á innanlandsfluginu.

Hér var minnst á gjöld sem á að leggja á, svokallað farþegagjald. Þar lendir allt innanlandsflug í 65 kr. gjaldinu sem er hið lægsta. Auðvitað er neikvætt að þurfa að hækka gjöld en ég vil þó taka fram að það gjald á að fara í mjög jákvæða hluti. Það á að fara í uppbyggingu á fjölsóttum ferðamannastöðum, þjóðgörðum og friðlýstum svæðum, sem ég tel að muni stórauka möguleika ferðaþjónustunnar. Þó að það gjald lendi á flugmiða tel ég að það muni þegar fram í sækir auka flugumferð af því að fólk sækir í náttúruna, m.a. úti á landi.