139. löggjafarþing — 67. fundur,  31. jan. 2011.

staða innanlandsflugs.

[15:58]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu og hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég rakti í ræðu minni áðan að leiðarflugsgjöld hefðu núna nýlega þrefaldast, lendingargjöld hækkað um 60%, flugverndargjöld 55%, farþegaskattur eða farþegagjöld tvöfaldast. Verið er að leggja á nýtt kolefnisgjald og ætlað er að leggja á ný umhverfisgjöld sem bitna á innanlandsfluginu. Það kostar 400 millj. kr. Það eru 10% af veltu innanlandsflugsins. Það kallar hæstv. innanríkisráðherra að verið sé að hlífa innanlandsfluginu.

Mér sýnist þvert á móti að verið sé að höggva mjög í innanlandsflugið. Það er verið að leggja sérstakar álögur á þessa viðkvæmu atvinnugrein sem mun hafa þær afleiðingar að flugfargjöld munu stórhækka. Það mun hafa afleiðingar fyrir landsbyggðina, sérstaklega fyrir atvinnulífið á landsbyggðinni. Það mun torvelda ferðamöguleika fólks, það mun draga úr þeim vexti sem við viljum sjá í ferðaþjónustu. Þess vegna get ég ekki með neinu móti tekið undir að verið sé að hlífa innanlandsfluginu með nokkrum hætti.

Það er auðvitað þannig að menn tala á stórum stundum oft um almenningssamgöngur. Innanlandsflugið er kannski besta dæmið um almenningssamgöngur í landinu. Í kringum 400 þús. manns fara um Reykjavíkurflugvöll á hverju einasta ári. Nú hefur dregið úr þessum umsvifum um hér um bil fimmtung á tveimur árum. Fyrir því eru auðvitað margs konar ástæður, m.a. hækkanir á gjöldum hins opinbera. Ég hafði satt að segja vænst þess að hæstv. innanríkisráðherra mundi bregðast þannig við ábendingunum sem ég setti málefnalega fram að hann mundi greina okkur frá því með hvaða hætti ríkisvaldið hygðist núna bregðast við þeim aðstæðum sem uppi eru. Við vitum að eldsneytishækkanir hafa skollið yfir okkur. Við vitum að það verður annars konar kostnaðarauki, kannski launahækkanir o.s.frv. Allt þetta mun gera rekstrarstöðu innanlandsflugsins erfiðari og þá er ekki á það bætandi að ríkið (Forseti hringir.) seilist sérstaklega eftir tekjum úr innanlandsfluginu. Það þolir það ekki, það er ekki á það bætandi.