139. löggjafarþing — 67. fundur,  31. jan. 2011.

stefna varðandi framkvæmdir.

215. mál
[16:16]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Mig langar að ræða við hæstv. innanríkisráðherra um atvinnustefnu og hugmyndir sem ríkisstjórnin hefur um að efla atvinnu m.a. í svokölluðum mannaflafrekum framkvæmdum. Í landinu er um 8% atvinnuleysi, 12–13 þús. manns. Því miður eru nokkrir komnir á langtímaatvinnuleysisskrá og detta þar af leiðandi út fyrir utan brottflutta hópinn sem vinnur orðið erlendis. Talið er að tapast hafi um 20–25 þús. störf úr landi.

Í umræðu um sóknaráætlun til eflingar atvinnulífi og samfélagi um land allt, sem var í þinginu 18. febrúar 2010, sagði hæstv. ráðherra, Ögmundur Jónasson, með leyfi forseta:

„Ég held að sjaldan hafi verið reynt að taka á atvinnumálunum af eins miklu viti og nú er gert.“

Seinna í þessari ræðu er talsvert langur kafli um neikvæðni í sambandi við stóriðju og síðan segir:

„Þá er annað sem ég legg líka áherslu á og kom einnig fram í umræðum um atvinnumál fyrr í dag, að horfa til starfa innan almannaþjónustunnar …“

Seinna, með leyfi forseta:

„Í almannaþjónustu, sérstaklega í heilbrigðisgeiranum og þeirri starfsemi sem sinnir fötluðu fólki, starfa hlutfallslega fleiri konur en karlar þannig að niðurskurður og samdráttur þar leiðir af sér að konur missa vinnuna frekar en karlar.“

Þetta er athyglisvert í ljósi niðurskurðar ríkisstjórnarinnar.

Síðan, með leyfi forseta, kemur fram:

„Á hitt er að líta að í hruninu hafa karlastörf einkum orðin samdrættinum að bráð, ekki síst í byggingariðnaði. Þar hefur verið mikill samdráttur og þar þurfum við að huga að verkefnum sem eru til þess fallin að finna fólki þörf og arðvænleg verkefni.“

Síðan er m.a. rætt um að viðhaldsverkefni séu mannaflafrek og annað í þeim dúr.

Það er áhugavert að á yfirstandandi ári og á tveimur undangengnum árum greiðum við um 70 milljarða í atvinnuleysisbætur en ég held að ríkisstjórnin, þrátt fyrir ágætan vilja og stefnur, hafi ekki eytt milljarði í þessar mannaflafreku framkvæmdir. Á minnisblaði sem ríkisstjórnin lét gera, frá iðnaðarráðuneytinu 16. júní sl., er farið yfir fjölmörg verkefni, bæði stór og smá. Það einasta sem komið hefur fram á þeim lista er að tónlistarhús við Austurhöfn er með um 4 milljarða á ári á þessu árabili. Aðrar framkvæmdir hafa verið í skötulíki. Þær voru áætlaðar á annað hundrað milljarðar á árinu 2010 og 142 milljarðar á árinu 2011.

Því langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvað þessum aðgerðum líði. Það væri hægt að fara í ódýrar aðgerðir eins og (Forseti hringir.) ráðherrann sagði sem kosta ekki mikið, í atvinnuuppbyggingu, mannaflafrekar framkvæmdir, t.d. fækkun einbreiðra brúa eða stærri viðhaldsverkefni (Forseti hringir.) á vegum ríkisins á byggingum hringinn í kringum landið.