139. löggjafarþing — 67. fundur,  31. jan. 2011.

bann við búrkum.

252. mál
[16:41]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Svar mitt er nei. En ég vil byrja á að þakka hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur fyrir þessa fyrirspurn. Hún er áhugaverð á ýmsa lund. Einhverjir kynnu að segja að hún væri áhugaverð vegna þess að í íslensku samfélagi sjáum við ekki fólk íklæðast búrku á götum úti.

En ég vil taka undir með hv. þingmanni að það getur verið gagnlegt að ræða slík álitamál áður en þau fara að snúast um einstaklinga enda getur slík umræða þá afvegaleiðst. Ég vil því taka undir með hv. þingmanni að það er eðlilegt að taka þessa umræðu núna.

Aðeins um hið sögulega samhengi. Umræða um bann sem þetta, við ákveðnum klæðaburði, er ekki ný af nálinni, hvorki á Vesturlöndum né utan þeirra. Hún var til staðar þegar á 18. og 19. öld þegar Vesturlandabúar, oftast karlar í viðskipta- og/eða trúboðserindum eða uppfullir af ævintýraþrá, ferðuðust austur á bóginn og varð tíðrætt um klæðaburð kvenna í Austurlöndum. Klæðaburður þessi, þar sem konur hylja hár sitt og líkama og stundum andlit, er oft tengdur við trúarbrögðin íslam en hefur víðtækari skírskotun og á jafnvel rætur fyrir útbreiðslu þeirra trúarbragða.

Í pólitískri umræðu var klæðaburður múslimskra kvenna tengdur beint við trúarbrögð og afturhaldssemi og þá andstætt svokallaðri nútímavæðingu. Einræðisherrar í Miðausturlöndum, sem renndu hýru auga til Vesturlanda, bönnuðu jafnvel slæður og blæjur kvenna til að sýna fram á að ríki þeirra væru vestræn og nútímaleg. Í þessum ríkisforsjáraðgerðum var iðulega vísað til kvenréttinda en þau voru hins vegar bundin við hagsmuni ríkisins og einræðisherrarnir munu seint teljast til mikilla kvenréttindafrömuða. Afleiðingar slæðubanns voru misjafnar og sums staðar leiddi það til þess að konur úr trúuðum fjölskyldum hættu að fara út fyrir hússins dyr.

Víkjum nú aftur að umræðunni í Evrópu á okkar dögum. Frakkar hafa gengið hvað lengst í að banna klæðnað múslimskra kvenna, bæði með banni við höfuðslæðu og öðrum trúarlegum táknum í ríkisskólum, það var árið 2004, og með banni við alhyljandi klæðnaði sem beinist gegn búrku og níkab sem er einnig alhyljandi klæðnaður og aðeins með rifu fyrir augum en það bann á að taka gildi nú í vor. Belgar ætla sér einnig að feta svipaðar brautir og umræðan hefur komið upp í fleiri Evrópuríkjum. Meðmælendur þess að banna ákveðinn klæðaburð með þessum hætti tengja búrku, níkab og jafnvel höfuðslæðu við kúgun og undirokun kvenna sem eigi að vera bönnuð. Það er hins vegar áhugavert að víða í Evrópu hafa talsmenn þessa ekki alltaf verið miklir baráttumenn fyrir kvenréttindum almennt nema síður sé.

Andstæðingar banns við þessum ákveðna klæðaburði benda hins vegar á að í fyrsta lagi séu ástæður kvenna fyrir klæðast búrku, níkab eða slæðu mjög mismunandi og að í öðru lagi leysi bann ekki málið í þeim tilfellum þar sem um kúgun getur verið að ræða. Þvert á móti geti bann leitt til meiri einangrunar. Þá verði nauðsynlegt að banna ótal hluti ef ráðast eigi gegn öllu því sem kúgar konur og er í því samhengi oft gripið til samlíkingar við heilsuspillandi lýtaaðgerðir og stundum hefur verið vísað í háa hælaskó.

Í þessu samhengi verður einnig að horfa til þess hversu margar konur klæðast búrkum eða níkab. Í Frakklandi er talað um að 2 þúsund konur hylji sig með þeim hætti en heildarfjöldi múslimskra kvenna í landinu er um 2 milljónir. Í Belgíu er talað um nokkra tugi kvenna. Sjálfur er ég á þeirri skoðun að mjög sterk rök þurfi að búa að baki því að ríkisvaldið fari að skipta sér af því með lagasetningu hverju fólk klæðist. Sönnunarbyrðin þykir mér hvíla á þeim sem fara fram á slíka lagasetningu og mér hafa ekki þótt röksemdir fyrir slíku banni hér á landi vera sannfærandi.

Við þurfum líka að vera meðvituð um að þessi umræða er angi af miklu stærri og viðkvæmari umræðu sem fjallar um samskipti ríkja og samskipti fólks af ólíkum uppruna innan ríkja. Hún snertir líka við gamalkunnu stefi Vesturlandabúans sem ætlar sér að frelsa konur í öðrum heimshlutum úr höftum kúgunar án þess endilega að líta á stöðu kvenna heima fyrir eða vilja á nokkurn hátt hreyfa við henni. Það er nokkuð sem ég er ekki að tengja við fyrirspyrjanda eða þessa umræðu, ég er bara að vekja athygli á því samhengi hlutanna.

Ég hvet þingmenn til að stíga varlega til jarðar í þessum efnum en fagna því að umræðan skuli koma upp. Ég er sammála hv. fyrirspyrjanda að það er eðlilegt að taka hana upp á þessu stigi áður en hún verður persónugerð.