139. löggjafarþing — 67. fundur,  31. jan. 2011.

bann við búrkum.

252. mál
[16:54]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Þetta er mjög mikilvæg umræða því að hún snertir ýmis grundvallaratriði, eins og ég gat um áðan, sem snúa að samskiptum ríkja, þjóðfélagshópa af mismunandi menningar- og félagslegum uppruna og það er mjög mikilvægt að við efnum til slíkrar umræðu. Klæðaburður, hefðir, smekkur er að uppistöðu til félagslega mótaður og endurspeglar iðulega samfélagið sem þessir þættir eru sprottnir upp úr. Ef við ætlum að banna allt sem er sprottið upp af jarðvegi sem við erum ekki alveg sátt við, þar á meðal karlaveldi, veit ég ekki hvar við ættum að láta staðar numið.

En þetta er umræða sem ég tel mjög mikilvægt að við tökum. Ég hef hugsað mikið um þessa hluti og gengið í smiðju þeirra sem hafa hugsað enn meira um þessa hluti en ég hef gert og komist að þessari niðurstöðu. Ég fagna þessari umræðu, tel hana tímabæra og hún þarf að taka til fleiri þátta. Hún gæti snert aðra umræðu sem hefur verið uppi í íslensku þjóðfélagi og snertir aðgang trúarsafnaða að skólum landsins. Við þurfum að taka þessa umræðu um samskipti mismunandi menningarhópa í þjóðfélagi okkar og ræða það af alvöru og ég lít svo á að þetta sé innlegg í þá umræðu og þakka fyrir hana.