139. löggjafarþing — 67. fundur,  31. jan. 2011.

Evrópusambandið og stöðvun hvalveiða.

399. mál
[17:25]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Hún var nokkuð löng baráttan fyrir því að hefja hér aftur hvalveiðar allt frá því þær voru stöðvaðar 1989 og þar til þær fóru af stað í formi vísindaveiða árið 2003. Miklar deilur voru um þær í samfélaginu og sýndist sitt hverjum. Hér voru aðilar sem höfðu miklar áhyggjur af því að ef við færum af stað með hvalveiðar að nýju mundu markaðir fyrir útflutningsafurðir okkar eyðileggjast, þá helst í sjávarútvegi, og ferðaþjónustan mundi líða mjög fyrir þá ákvörðun og við mundum upplifa mótmæli út um allan heim gegn ákvörðun okkar og veiðunum. Reynslan er allt önnur. Nú á þessu ári eru um átta ár liðin síðan við hófum hvalveiðar. Við hófum vísindaveiðar 2003, síðan takmarkaðar atvinnuveiðar árið 2006 og árið 2009 hófum við atvinnuveiðar af fullum krafti bæði á stórhval og hrefnu, eða langreyði og hrefnu.

Það má segja að góður árangur hafi náðst af markaðssetningu á hvalafurðum innan lands. Hvalkjöt er nú á boðstólnum í verslunum allt árið um kring og auðvitað mjög áberandi yfir sumartímann þegar veiðarnar eru stundaðar. Neytendur hafa tekið þessu vel. Fólk á öllum aldri neytir þessara afurða. Veitingastaðir eru stórir viðskiptavinir og það eru fáir veitingastaðir, sérstaklega yfir sumartímann, sem ekki hafa hvalafurðir eða hvalkjöt í einhverri útgáfu á matseðlinum. Þeir sem helst kaupa eru útlendingar og vaxandi fjöldi ferðamanna sem kemur til Íslands vill njóta þess.

Hvalveiðar verða okkur mikilvægar í atvinnu- og verðmætasköpun í framtíðinni. Þær eru einnig mjög mikilvægar til að viðhalda jafnvægi í lífríkinu í hafinu umhverfis Ísland.

Í ályktun Evrópusambandsins frá 7. júlí árið 2010 segir að Íslendingar verði að hætta öllum hvalveiðum og draga til baka fyrirvara sína innan Alþjóðahvalveiðiráðsins vegna samþykktar um bann á hvalveiðum. Þetta verðum við að gera til að uppfylla kröfur um aðild að Evrópusambandinu.

Við höfum einnig séð á síðastliðnu ári ályktanir frá þjóðþingum Þýskalands og Hollands þaðan sem okkur voru send alveg skýr skilaboð um að þau mundu ekki samþykkja aðild Íslands að Evrópusambandinu nema við hættum hvalveiðum og öllum viðskiptum með hvalafurðir. En viðskiptin, eins og ég sagði áðan, eru mjög mikilvæg í formi útflutnings til Japans sem er ört vaxandi og á innanlandsmarkaði.

Ég vil því spyrja hæstv. sjávarútvegsráðherra hvort hann hyggist taka eitthvert tillit til þessara sjónarmiða af hálfu Evrópusambandsins vegna þeirra aðildarviðræðna sem við erum í við Evrópusambandið og breyta þeirri ákvörðun sem hefur verið í gildi um að hér séu stundaðar sjálfbærar hvalveiðar.