139. löggjafarþing — 67. fundur,  31. jan. 2011.

Evrópusambandið og stöðvun hvalveiða.

399. mál
[17:28]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Spurning hv. þm. Jóns Gunnarssonar er þannig: Hyggst ráðherra bregðast við kröfum nokkurra aðildarríkja Evrópusambandsins um að banna hvalveiðar í ljósi viðræðna um aðild Íslands að sambandinu?

Afstaða Íslands er varðar nýtingu sjávarspendýra er í grundvallaratriðum ólík afstöðu Evrópusambandsins. Íslensk stjórnvöld leggja áherslu á réttinn til sjálfbærrar nýtingar lifandi auðlinda hafsins, þar á meðal sjávarspendýra. Núverandi stefna Íslands í hvalveiðimálum er byggð á ályktun Alþingis um hvalveiðar frá 10. mars 1999 og á þeim grundvelli og í samræmi við vilja þingsins eru hér stundaðar sjálfbærar og löglegar veiðar á hrefnu og langreyði.

Einnig er vert að halda því til haga að í kjölfar áðurnefndar ályktunar var málstaður Íslands kynntur erlendis m.a. með endurinngöngu Íslands í Alþjóðahvalveiðiráðið sem virks þátttakanda í tilraunum við að koma á stjórnkerfi fyrir hvalveiðar í atvinnuskyni. Þetta á einnig við um málflutning á vettvangi samningsins um alþjóðaverslun með tegundir villtra dýra og plantna sem eru í útrýmingarhættu og virkrar þátttöku Íslands innan Norður-Atlantshafsspendýraráðsins, en veiðar Íslendinga á hrefnu og langreyði eru innan þeirra marka sem kveðið er á um í veiðiráðgjöf Hafrannsóknastofnunar, enda er sjálfbærni grundvallaratriði í nýtingu og verndun auðlinda lands og sjávar.

Veiðar á sjávarspendýrum eru, eins og hv. þingmaður kom inn á, bannaðar með lögum innan Evrópusambandsins. Í áfangaskýrslu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um stöðu Íslands, sem birt var í nóvember síðastliðnum, um nýtingu og viðskipti með afurðir sjávarspendýra, svo sem hvala og sela, eru tiltekin atriði sem Ísland á eftir að samræma að reglum Evrópusambandsins komi til inngöngu þar. Áður hafði þýska þingið í sambandi við atkvæðagreiðslu um stuðning aðildarumsóknar Íslands lýst því yfir að Ísland yrði að taka þátt í verndun hvala í samræmi við alþjóðalög og ESB-lög. Í desember 2010 samþykkti hollenska þingið ályktun þess efnis að Íslendingar verði að hætta hvalveiðum og sölu á hvalkjöti þegar í stað vilji þeir ganga í Evrópusambandið.

Grundvallarmunur milli Evrópusambandsins og Íslands sést kannski best í því að nýting sjávarspendýra innan Evrópusambandsins er flokkuð sem náttúruverndar- og umhverfismál en Íslendingar hafa litið á hvalveiðar og selveiðar sem hluta af eðlilegri nýtingu sjávarauðlinda landsins. Út frá því er ekki við öðru að búast en að krafan um bann við veiðar og viðskipti um afurðir sjávarspendýra verði sett fram í viðræðum Íslands um hugsanlega aðild að Evrópusambandinu. Vert er að hafa í huga að mögulegan aðildarsamning við Ísland verður að samþykkja á öllum þjóðþingum aðildarlandanna.

Þjóð sem byggir lífsviðurværi sitt á nýtingu sjávarafurða og aflar talsverðs og verulegs hluta gjaldeyristekna sinna með útflutningi þeirra getur hins vegar af grundvallarástæðum ekki fallist á bann við veiðum og viðskiptum með afurðum sem aflað er með sjálfbærum hætti. Ég tel ekki ástæðu til að bregðast á nokkurn hátt við kröfum umræddra ríkja um bann við hvalveiðum. Afstaða þessara ríkja kemur ekki á óvart því að, eins og áður hefur verið sagt, eru hvalveiðar bannaðar innan Evrópusambandsins. Ráðherra mun fara áfram í þessum efnum sem öðrum að vilja Alþingis og Alþingi hefur kveðið á um að hér skuli vera heimilt að stunda hvalveiðar. Það er svo atriði út af fyrir sig hvort þær séu stundaðar eða ekki, en rétturinn til að nýta auðlindir á sjálfbæran hátt, vernda þær og eiga viðskipti með þær er sá réttur sem við munum alltaf standa á að mínu mati.