139. löggjafarþing — 67. fundur,  31. jan. 2011.

Evrópusambandið og stöðvun hvalveiða.

399. mál
[17:35]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Sú var tíðin að miklar deilur voru innan lands um hvalveiðar. Ástæðan var sú að margir óttuðust að þegar hvalveiðar mundu hefjast hefði það neikvæð áhrif t.d. á ferðaþjónustu okkar. Nú hefur reynslan sýnt okkur annað og þess vegna sjáum við að það er hægt að segja að deilurnar hafi að mestu leyti verið settar niður. Það er helst að hv. þm. Mörður Árnason móist við svona öðru hverju úr ræðustól Alþingis.

Það eru mjög litlar deilur um þessi mál innan lands en hins vegar hefur borið á því að sérstaklega ríki Evrópusambandsins hafi verið að reyna að beita okkur ofríki. Ég hef alltaf trúað því að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra mundi ekki láta Evrópusambandið kúga sig í þessum efnum. Þess vegna fagna ég mjög afdráttarlausri yfirlýsingu hæstv. ráðherra. Hann fylgir eftir þeirri stefnumótun sem Alþingi lagði af stað með og ég fékk það hlutverk að framkvæma. Um þau mál er orðin góð sátt innan lands. Hæstv. ráðherra fylgir eftir þeirri vel heppnuðu stefnu sem nú hefur verið fylgt í ein átta ár.