139. löggjafarþing — 68. fundur,  1. feb. 2011.

skattstefna ríkisstjórnarinnar.

[15:06]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það væri kannski ágætt að ég fengi svolítinn viðbótarkvóta líka úr því að ég á að heita til svara.

Ég vil í fyrsta lagi segja að ég vona að hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hafi ekki verið að vega að fræðimannsheiðri Stefáns Ólafssonar eða Arnaldar Sölva Kristjánssonar sem eru ábyrgir fyrir (Gripið fram í.) þeirri góðu samantekt sem hér er að finna — og byggir á hverju? Á álagningargögnum ríkisskattstjóra. Ég bið menn að gæta sín þegar þeir fara að gera lítið úr fræðilegri úrvinnslu á opinberum gögnum sem er langt gengið ef menn ætla að fara að vefengja. (Gripið fram í.) Ja, ég treysti Stefáni Ólafssyni betur þegar kemur að hans fagsviði, já.

Í öðru lagi verð ég að segja að mér finnst athyglisverður málflutningur stjórnarandstöðunnar og líka sérstaklega að Framsóknarflokkurinn sé enn á þessari línu. Hér kveður við sorgarsöngur yfir því að menn hafi í einhverjum mæli fært til baka það skattkerfi í Evrópu sem orðið var hve mest hægri sinnað og mengað af nýfrjálshyggju. Ísland var komið lengst í áttina að Ameríku í skatthlutföllum og útfærslum í lok frjálshyggjutímans hér. Við höfum fært það í áttina til baka heim — og hvar er heima? Heima er norrænt jöfnunarskattkerfi í velferðarsamfélagi. Engu að síður eru skatthlutföll hér gagnvart einstaklingum lægri en annars staðar á Norðurlöndunum þannig að ekki fara menn til Noregs til að borga lægri skatta. Sérstaklega eru skatthlutföll hér þá enn þá mun lægri á lögaðila og það er staðreynd að vegið meðaltal skatthlutfalls á atvinnulíf á Íslandi er, eftir því sem ég best veit, hið þriðja lægsta í Evrópu. Aðeins Írland og Lúxemborg eru þar með lægri hlutföll, með þeim fyrirvara auðvitað að frádráttarliðir skipta máli.

Aðalatriði málsins er að skattkerfisbreytingar ríkisstjórnarinnar hafa heppnast vel. Þær hafa náð fram þeirri breytingu á skattbyrði sem við stefndum að, þ.e. að hlífa lágtekjufólki og færa byrðarnar á tekjuhæstu og ríkustu einstaklingana (Forseti hringir.) og sem tekjuöflunaraðgerð hefur þetta heppnast fullkomlega, samanber það að tekjuáætlun fjárlaga fyrir árið 2010 kom í hús og 1% betur.