139. löggjafarþing — 68. fundur,  1. feb. 2011.

flugmálaáætlun og fjáröflun til flugmála.

407. mál
[16:43]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að bregðast aðeins við þeim breytingum sem verið er að gera hér. Ég kalla eftir afstöðu hæstv. innanríkisráðherra, sérstaklega í ljósi þess að hæstv. utanríkisráðherra sem er sá eini sem hefur blandað sér í umræðuna ásamt mér hér hingað til, sem sérstakur fulltrúi þeirra úr Árneshreppi, hefur talað þannig hér í samgöngumálum þegar þau eru til umræðu. Í þessu frumvarpi er gert ráð fyrir því að í stað nefskatts sem lagður er núna væntanlega á alla íbúa landsins verði notendagjöldin hækkuð. Þeir sem nota flugið í dag (Gripið fram í: Sem eru …) munu þurfa að borga þetta til viðbótar vegna þess að nefskatturinn er lækkaður á móti eða felldur úr gildi.

Eins og ég sagði í upphafi langar mig að kalla eftir afstöðu hæstv. innanríkisráðherra til þess hvaða sanngirni sé í því að t.d. íbúar Árneshrepps, íbúar á sunnanverðum Vestfjörðum sem allir hér inni vita að hafa ekki neinar samgöngur á landi, eigi að borga meira. Vegirnir norður í Árneshrepp eru ekki ruddir þannig að samgönguæð þeirra er að mestu leyti, a.m.k. yfir vetrartímann, með flugi. Þó að varla sé hægt að tala um að þetta séu samgöngur yfir sumartímann er þó hægt að komast þangað. Hver er afstaða ráðherrans til þess að útgjöld þeirra einstaklinga sem hafa ekki tök á því að keyra vegina og þurfa að nota flugið muni hækka til muna? Þetta breytist úr því að allir greiði þessi gjöld jafnt yfir í að þau leggist á þessa íbúa af auknum þunga. Þá koma fyrst og fremst upp í huga minn íbúar á sunnanverðum Vestfjörðum, sem þurfa að búa við þær hörmungar sem þar eru og sem því miður sér ekki fyrir endann á, og íbúar Árneshrepps.