139. löggjafarþing — 69. fundur,  2. feb. 2011.

sala fyrirtækja í almannaeigu -- Íbúðalánasjóður -- Læknavaktin o.fl.

[14:07]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Mig langar að gera að umtalsefni störf þingsins, þingið sjálft. Við sáum forsíðu Fréttablaðsins held ég frekar en Morgunblaðsins þar sem rætt var um að Íbúðalánasjóð skorti heimildir til að taka þátt í að lækka skuldir eða hjálpa til við að endurreisa heimilin í landinu. Ég velti fyrir mér hvers vegna svo sé. Ég held að það sé vegna þess að ekki sé nógu góð vinna unnin hjá framkvæmdarvaldinu gagnvart þinginu. Við þurfum að styrkja þann faglega grundvöll sem þingið starfar á. Þó að við þingmenn búum yfir mjög góðu starfsfólki þarf að styrkja þingið.

Fyrir þinginu liggur tillaga um að koma á lagaskrifstofu þingsins. Ég held að við þurfum að sameinast um að sú tillaga nái fram að ganga og að hún fái þá umfjöllun sem hún þarf að fá hér. Einnig vil ég að við hugsum um að koma á fót einhvers konar efnahagsráði, ráðgjafarhópi eða einhverju slíku fyrir þingið til að hjálpa til við það.

Frú forseti. Mig langar líka að nefna það sem einnig var í fréttum og hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir vakti m.a. athygli á, og vil ég þakka henni það, varðandi það að seðlabankastjóri skuli koma fyrir þingnefnd og neita að veita upplýsingar, ef ég hef skilið málið rétt. Mér finnst grafalvarlegt að embættismaður ríkisins, embættismaður okkar, skuli neita að veita þessar upplýsingar og neitunin virðist vera á þeim forsendum að hann treysti ekki þingmönnum, að hann treysti okkur ekki til að halda trúnað um það sem hann segir. Við þurfum að breyta því.

Frú forseti. Ég set alvarleg spurningarmerki við það hvort þessi ágæti embættismaður sé starfi sínu vaxinn þegar hann neitar að veita löggjafarvaldinu þær upplýsingar sem farið er fram á. Ég held, frú forseti, að það ætti að hvetja hæstv. forsætisráðherra til að beita sér fyrir því að það verði endurskoðað hvort þessi ágæti maður getur setið í því embætti sem hann er í í dag.