139. löggjafarþing — 69. fundur,  2. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[17:27]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður talar eins og maður sem kominn er úr erfiðri baráttu sem sannarlega er rétt. Það er gaman að fylgjast með því hvernig hin norðlenska hógværð brýst út í máli hans. Fram kemur í ræðu hans að hann var langfyrstur til að benda á að rétt væri að fara með þetta mál í þjóðaratkvæðagreiðslu og líkast til ber að þakka honum fyrir það. Þegar þurfti síðan að safna undirskriftum þurfti, eins og segir í nefndarálitinu, að fara í langar umræður í þinginu og þar stóð nú hv. þingmaður sig ekki illa. Hann stóð að eigin sögn lengst í pontu í þeirri atrennu. Þegar upp er staðið og maður metur þetta allt er staðan sem nú er upp komin, sem er sannarlega miklu betri en hún var áður, sennilega öll honum að þakka. Rifjar þetta upp fyrirrennara íslenskrar skáldsagnagerðar, bók sem var þekkt fyrir hið fræga svar: Sáuð þið hvernig ég tók hann, piltar?

Sannarlega hefur hv. þingmaður staðið sig vel og að mörgu leyti fannst mér þetta vera prýðileg ræða hjá honum. Hann segir að samningurinn nú sé miklu betri, hann talar um að hann hafi fengið aðgang að þeim upplýsingum sem hann þurfti en mál hans allt virðist hníga að niðurstöðu sem ég skil ekki alveg. Hver er afstaða hv. þingmanns? Ber að skilja ræðu hans svo og nefndarálitið að það sé skilyrtur stuðningur við málið, þ.e. ef breytingartillaga hans er samþykkt mun hann þá styðja þetta mál? Ef hún verður ekki samþykkt mun hann þá vera andvígur málinu?

Við erum núna við 2. umr. og það er þá sem stjórnmálaflokkar gera grein fyrir afstöðu sinni. Hv. þingmaður er talsmaður Framsóknarflokksins. Aðrir talsmenn hafa gert grein fyrir sinni afstöðu. Hver er afstaða Framsóknarflokksins? Er það afstaða hv. þingmanns? (Forseti hringir.) Hver er sú afstaða?