139. löggjafarþing — 69. fundur,  2. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[17:36]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágætt nefndarálit og ágæta ræðu. Það er rétt að hann stóð hérna dyggan vörð. Hann rekur söguna en ekki nægilega langt aftur og vegna þess að við komum inn á þennan punkt langar mig til að spyrja hv. þm. Höskuld Þórhallsson hvers vegna hann telji að hæstv. fjármálaráðherra hafi skrifað undir fyrsta samkomulagið. Hvernig stendur á því að hann skrifaði undir samkomulag allt í einu í upphafi eftir að hafa lýst því yfir nokkrum dögum áður að það stæði ekki til? Hvaða hvatir voru á bak við það? Hefur hv. þingmaður gert sér grein fyrir því í allri þessari sögu (Gripið fram í.) hvers vegna hann hafi skrifað undir það ótrúlega samkomulag sem hann gerði við bresk og hollensk stjórnvöld? Tengist það því að hann var nýbúinn að taka við völdum og vildi hugsanlega koma sökinni á einhverja aðra sem höfðu látið af völdum?