139. löggjafarþing — 71. fundur,  14. feb. 2011.

skuldamál fyrirtækja.

[15:18]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Frú forseti. Ég spurði hæstv. forsætisráðherra að því á dögunum hvort með þeim aðgerðum sem farið var í af hálfu ríkisstjórnarinnar skömmu fyrir áramót væri búið að ná utan um skuldavanda heimilanna eða hvort ríkisstjórnin teldi að grípa þyrfti til frekari aðgerða. Fram kom í máli hæstv. forsætisráðherra að hún teldi að búið sé að ná fullkomlega utan um vandann og ekki sé þörf á að framlengja frest vegna nauðungarsalna sem lýkur núna í lok marsmánaðar.

Mig langar til að spyrja hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra hvað líði endurskipulagningu gagnvart fyrirtækjunum í landinu. Við höfum ábyggilega heyrt það, flestir þingmenn sem vorum á ferð núna í kjördæmavikunni, að það sem efst er á baugi hjá fólkinu í landinu er kaup þess og kjör, staða heimila þess og ótti um atvinnu. Við heyrum það einnig frá fyrirtækjunum. Þar eru menn verulega áhyggjufullir yfir því rekstrarumhverfi sem nú er og einnig því að illa gangi að koma þeim fyrirtækjum sem bankar hafa tekið yfir aftur á markaðinn og að þau fyrirtæki sem eru þó lífvænleg séu ekki enn þá búin að fá þá endurskipulagningu sem menn höfðu óskað eftir.

Það samkomulag sem hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra gekk frá skömmu fyrir jólin gerir ráð fyrir að þessari endurskipulagningu lífvænlegra fyrirtækja verði lokið 1. júní að ég hygg. Mig langar til að spyrja hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra, í ljósi þess að raddir hafa verið uppi í atvinnulífinu að hægt gangi í þeirri vinnu, hvað þessu verkefni líði, hvað hæstv. ráðherra telji að langt sé í það að þeirri vinnu ljúki og hvort hann telji að með þeim aðgerðum sem gripið var til eða á að grípa til verði hægt að ná utan um vanda þessara fyrirtækja.

Það er ekki nóg, virðulegi forseti, að boða til fundar um að hefja skuli sókn í atvinnuuppbyggingu. Nota bene, í mars 2009 var sambærileg sóknaráætlun í gangi af hálfu ríkisstjórnarinnar þegar skapa átti 4.000–6.000 störf. Núna tveimur árum síðar hefur ríkisstjórnin ákveðið að þrefalda þá tölu sem nauðsynlegt er að ná utan um. (Forseti hringir.) Það er ekki hægt að horfa einungis á það þarna megin þegar fyrirtækin sem þó eru starfandi í landinu hafa ekki enn þá fengið nauðsynlegt súrefni.