139. löggjafarþing — 71. fundur,  14. feb. 2011.

svör ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatíma, ráðherraábyrgð.

[15:39]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég kem upp til að hvetja hæstv. forseta til að ávíta alvarlega og setja ofan í við hæstv. fjármálaráðherra vegna orða sem féllu í ræðu hans áðan þar sem hann sakaði bæði fyrirtæki það sem hann fer með hlutabréfið í, Landsvirkjun, um að greiða mútur eða kaupa sér niðurstöðu og sveitarfélag á Suðurlandi fyrir að þiggja slíkar greiðslur. Ég held að það sé mjög aðkallandi að ráðherrann fái ofanígjöf frá forseta þingsins og frá þingmönnum fyrir að tala þannig.

Maður spyr sig þá um leið, frú forseti: Hvað höfum við lært? Hvað sagði rannsóknarskýrslan okkur? Hvað var í 63:0 tillögunum? Hvað hefur breyst á Íslandi? Hvar er hið nýja Ísland sem hæstv. fjármálaráðherra og svo margir tala um þegar kemur að því að axla ábyrgð? Hér er ráðherra dæmdur af Hæstarétti fyrir að brjóta lög og það er bara pólitík, segir hún.