139. löggjafarþing — 71. fundur,  14. feb. 2011.

afnám verðtryggingar.

[15:57]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Verðtryggingin dregur úr útlánaáhættu fjármálafyrirtækja og var mikilvæg ástæða þess að hér varð til allt of stórt bankakerfi sem hrundi haustið 2008. Afnema átti verðtrygginguna strax eftir hrun en það var ekki gert, m.a. vegna andstöðu forustu verkalýðshreyfingarinnar sem vísvitandi ákvað að láta skuldsett heimili taka á sig verðbólguskotið sem alltaf kemur í kjölfar bankahruns.

Verðbólguskotið hækkaði fasteignaskuldir heimilanna um 550 milljarða. Þessir 550 milljarðar bættust ofan á það sem hefur verið áætlað að séu um 860 milljarðar vegna innstæðutryggingar umfram 5 millj. kr. á hvern innstæðueiganda, m.a. um 1.400 milljarðar sem runnu frá skattgreiðendum og skuldsettum heimilum til fjármagnseigenda. Aldrei áður hefur önnur eins eignatilfærsla frá skuldsettum heimilum og skattgreiðendum átt sér stað til fjármagnseigenda eftir bankahrun.

Frú forseti. Afnám verðtryggingar mun ekki leiðrétta þessa miklu eignatilfærslu. Það er einungis hægt að gera með leiðréttingu lána. Nauðsynlegt er að afnema verðtrygginguna strax til að koma í veg fyrir að fasteignalán hækki þegar gjaldeyrishöftin verða afnumin. Reynsla annarra þjóða af afnámi gjaldeyrishafta án skattlagningar útstreymis fjármagns er mikil gengislækkun og verðbólguskot.

Frú forseti. Það þarf að bjóða fólki upp á óverðtryggð lán með föstum vöxtum í allt að fimm ár. Slíkt lánafyrirkomulag mun þyngja verulega greiðslubyrðina af fasteignalánum, sérstaklega ef ekki er um að ræða (Forseti hringir.) jafngreiðslulán. Því þarf að auka framboð af félagslegu og kaupleiguhúsnæði.