139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[18:23]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Höskuldur Þór Þórhallsson bendir á merkilegan hlut. Ég nefndi að dómsmál væri áhætta fyrir Breta og Hollendinga, bæði vegna þess að þeir kynnu að vinna málið og kynnu að tapa því, en þá bendir hv. þingmaður réttilega á að á sama hátt er það einmitt mikil áhætta til framtíðar fyrir Ísland að samþykkja þennan samning vegna þess að með því sé Ísland að staðfesta það að íslenska ríkið ætli til allrar framtíðar að ábyrgjast bankana, þannig að verði annað bankahrun sé íslenska ríkið undir líka. Þá veltir maður því auðvitað fyrir sér: Er ekki með því verið að skapa aukna áhættu fyrir íslenska ríkið, þ.e. aukið áhættuálag, ef menn staðfesta það hér að íslenska ríkið ætli að taka ábyrgð á þessum bönkum sínum, sem menn vita ekki alveg nógu vel hvernig standa, og það geti beinlínis þvælst fyrir okkur í uppbyggingarstarfi og í lántökum ríkisins? Áhætta ríkisins sé sem sagt orðin svo mikil til framtíðar, til viðbótar við Icesave-kröfurnar sé framtíðaráhætta vegna þess að menn ætli að ábyrgjast allt bankakerfið upp á nýjan leik. Þetta er náttúrlega eitt af þeim stóru atriðum í þessu máli sem hafa ekki fengið nægilega góða umfjöllun og þess vegna er svo undarlegt að þessu máli skuli hafa verið kippt skyndilega út úr fjárlaganefnd í gær.

Svo kemur hv. formaður fjárlaganefndar og virðist ekki alveg hafa gert sér grein fyrir muninum á mati þessara lánshæfismatsfyrirtækja, sem hafa nákvæmlega engan trúverðugleika eftir að hafa haft rangt fyrir sér um nánast alla hluti undanfarin ár, og ruglar því saman við skuldatryggingarálag sem er hinn raunverulegi mælikvarði markaðarins á áhættu, hverjum menn eru tilbúnir að lána og hversu góð kjörin eru þegar menn eru tilbúnir að lána.