139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[21:25]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Margréti Tryggvadóttur fyrir hlý orð í minn garð og góða fyrirspurn. Ég held að það sé vel hugsanlegt að íslenska ríkið gæti ráðið fram úr þessu ef áhættuþættirnir falla með okkur, en þar liggur hundurinn grafinn. Við vitum ekki hvernig málið kemur til með að þróast og þarf ekki mikið að gerast, eins og einn af ráðgjöfum fjárlaganefndar benti á, til að krafan fari úr nokkrum tugum milljarða upp í 200–300 milljarða. En segjum sem svo að hlutirnir fari á besta veg og þetta verði bara nokkrir tugir milljarða, getum við þá greitt þetta? Já, líklega en við verðum að hafa í huga að til þess að greiða þetta munum við þurfa að fórna einhverju öðru og fórnirnar sjáum við nefnilega einmitt og vel þessa dagana þegar við höfum verið að ræða fyrst fjárlagafrumvarpið og nú niðurskurð víða um land, ekki hvað síst í Reykjavíkurborg, þar sem um er að ræða yfirleitt einhverjar milljónir, tugi milljóna, jafnvel hundruð milljóna eins og var í tilviki heilbrigðisstofnana úti á landi. Þar var kannski um að ræða í einhverjum tilvikum 100, 200 eða 300 millj. kr.

Engu að síður olli þessi niðurskurður upp á tugi eða hundruð milljóna gífurlegu samfélagslegu tjóni eða stefndi a.m.k. í það á þessum stöðum og nú er, eins og ég nefndi, mjög tvísýnt í Reykjavík vegna niðurskurðar sem er miklu minni en þetta. Kostnaðurinn við það að taka út úr hagkerfinu tugi milljarða í erlendri mynt felur í sér að það hefur veruleg áhrif á líf venjulegs Íslendings. Við verðum líka að hafa í huga að það er grundvallarmunur á upphæð sem fer í kostnað innan lands og sömu upphæð sem fer út úr landinu í erlendri mynt vegna þess að þeir peningar eru horfnir, þeir veltast ekki áfram innan lands eins og þegar ríkið (Forseti hringir.) lendir í kostnaði innan lands.