139. löggjafarþing — 74. fundur,  16. feb. 2011.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu.

471. mál
[19:23]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Mín skoðun er sú og var það líka fyrir einu og hálfu ári að ekki sé hægt að sækja um aðild að Evrópusambandinu til að sjá hvað er í boði. Evrópusambandið sjálft er í boði. Menn greinir hins vegar á hvort það sé gott eða slæmt fyrir Íslendinga að ganga í Evrópusambandið. Þýskir þingmenn sem komu hingað á síðasta ári voru himinlifandi þegar þeir ræddu við okkur þingmenn hér. Þeir sögðu að það væri svo ánægjulegt að fá loksins inn ríki — það væri búið að taka svo mikið inn af ríkjum austar í álfunni — sem greiddi meira til sambandsins en það tæki frá því. Þarf að segja meira?

Íslensk þjóð er öflug þrátt fyrir ákveðna erfiðleika núna, við eigum mikið af auðlindum og við höfum mikla möguleika. Það liggur ljóst fyrir að við munum greiða meira til sambandsins en við fáum frá því og það liggur líka ljóst fyrir hvað er í boði, það er Evrópusambandið. Það eru engar varanlega undanþágur þar í boði, engar í það minnsta sem hafa áhrif á sjávarútveg (Forseti hringir.) og hinar stóru atvinnugreinar okkar Íslendinga.