139. löggjafarþing — 75. fundur,  17. feb. 2011.

breytingar á lögum um stjórn fiskveiða.

[10:34]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Eins og hv. þingmaður veit er málið í vinnslu á forræði sjávarútvegsráðherra með aðkomu þingmanna stjórnarflokkanna og ég vona að innan tíðar, innan örfárra vikna, verði málið lagt fram á þingi. Ekki hefur verið horfið frá samningaleiðinni eins og mér fannst hv. þingmaður benda á og reyndar hefur það komið fram opinberlega. Menn verða að líta til þess um hvað samningaleiðin snýst.

Kjarninn í samningaleiðinni er að tryggja með skýrum og afdráttarlausum hætti í framkvæmd að auðlindirnar séu í eigu þjóðarinnar og ráðstafað af ríkinu, það er grundvallaratriði, og að auðlindunum verði ráðstafað til leigu eða afnota til afmarkaðs tíma hverju sinni gegn gjaldi sem rennur í auðlindasjóð. Hv. þingmaður veit líka eins vel og ég að það eru margar skoðanir á útfærslunni á samningaleiðinni og þarf ekki annað en lesa álitin sem fylgdu í greinargerð frá stóru nefndinni sem skilaði af sér í september.

Ef við tökum eitt stórt grundvallaratriði: Hvað á leigu- og nýtingartíminn að vera langur? Í því sambandi var nefnt allt frá 10–20 árum upp í 45–65 ár. Það er stórt atriði sem menn þurfa að ná einhverri niðurstöðu um. Spurt er hvað verða eigi um kvótaaukningu, hve mikið eigi að fara í potta o.s.frv., þannig að álitaefnin voru mörg. Ég hygg að það séu fjögur til sex álitaefni í því sem nú er verið að skoða. Flokkarnir eru að reyna að ná samstöðu um útfærsluna bæði á grundvelli þeirrar niðurstöðu sem fram kom í stóru samninganefndinni sem skilaði af sér í september og út frá þeirri niðurstöðu sem fram kom í nefndinni og haft það til hliðsjónar.

Ég tel (Forseti hringir.) að það sé mjög mikilvægt að þetta mál, þótt mikilvægt sé, þvælist ekki fyrir kjarasamningunum. Málinu hefur a.m.k. í bili verið ýtt til hliðar og þannig kjarasamningar geti haldið áfram, það er lykilatriði. Svo (Forseti hringir.) er auðvitað mikilvægt að ná ásættanlegri niðurstöðu í fiskveiðistjórnarmálum þegar að því kemur.