139. löggjafarþing — 75. fundur,  17. feb. 2011.

neysluviðmið.

[11:32]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja mál mitt á að þakka málshefjanda, hv. þm. Birgittu Jónsdóttur, fyrir að vekja máls á þessari skýrslu og taka hana til umræðu. Ég tel að hér sé á ferðinni afar vel unnin skýrsla. Hún er viðamikil, en við skulum athuga það að þessi skýrsla er í rauninni það sem ég mundi vilja kalla svipmynd. Hún endurspeglar núverandi ástand en ekki þörf og því er hún ekki þarfagreining í þeim skilningi. Hún endurspeglar ekki þörf, hún endurspeglar neyslu. Miðað við reiknivélina sem er birt með skýrslunni sjáum við að jafnvel tiltölulega hálaunuð störf, t.d. störf þingmanna og lækna, mundu tæplega duga fyrir meðalneyslu fjögurra manna fjölskyldu. Það er athyglisvert og kemur inn á það sem hv. þm. Guðmundur Steingrímsson sagði áðan, hvert við erum eiginlega komin í þessu neyslusamfélagi, hvað við erum eiginlega komin langt í því að jafnvel þokkalega launuð störf að flestra mati eiga samkvæmt neysluviðmiðum ekki að duga fyrir venjulegri framfærslu.

Ég varð fyrir dálitlum vonbrigðum með að ekki væri lögð meiri áhersla á húsnæðisliðinn vegna þess að húsnæði er væntanlega það sem allir þurfa, það er ein af grunnþörfunum, og ég hefði kosið að ráðuneytið hefði ekki hikað við að leggja meiri vinnu í þann þátt. Það væri gaman að heyra eitthvað frá hæstv. ráðherra um það.

Ég tel að þessi skýrsla sé fyrst og fremst byrjunin. Vinnan þarf að halda áfram og meta þarf þörfina í framhaldinu því að þannig getum við tryggt öryggi þegnanna með tilliti til (Forseti hringir.) framfærslu. Við ættum horfa frekar á þá þætti en að neyslumiða þetta eins mikið og gert var.