139. löggjafarþing — 75. fundur,  17. feb. 2011.

áætlun um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2011--2014.

486. mál
[13:00]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessar góðu undirtektir en ég fagna því líka að nefndin mun undir forustu hans taka málið til gagngerrar skoðunar. Þessi áætlun miðar við þá staðreynd að menn horfa fram til næstu ára í krafti efnahagsáætlana sem hafa verið lagðar fram og menn eru þeirrar skoðunar að það verði upp úr 2014 sem Ísland fari að taka rækilega við sér og við getum þá aftur farið að leyfa okkur að skoða með hvaða hætti við getum notað ríkidæmi okkar og auðlegð til þess að vinna bug á fátækt annars staðar. Ég held að það liggi alveg ljóst fyrir að aðstoð af hálfu auðugri þjóða heims hefur skipt mjög miklu máli fyrir fátækustu svæði veraldar. Það liggur líka alveg ljóst fyrir að ríkisstjórn af ríkisstjórn fram hefur lýst þessum markmiðum. Menn fóru af stað á síðasta áratug og gerðu það nokkuð bratt, náðu, fannst mér, tiltölulega góðri sveiflu í þessum efnum. Ég held að það hafi ekki einungis verið vegna þess að við vorum að slást um sæti í öryggisráðinu heldur tel ég að það hafi skapast mikil samstaða um það hér í þinginu að þetta væri partur af skyldum ríkisins og Íslands. Ég heyri það líka á þessari umræðu að það hefur ekkert breyst. Þess vegna segi ég fyrir mitt leyti að ég fagna því ef utanríkismálanefnd skoðar það út í hörgul hvort það sé rétt og hvort raunhæft sé að skrúfa með einhverjum hætti þessa áætlun hraðar fram heldur en ég hef gert í því skjali sem hér liggur fyrir.