139. löggjafarþing — 75. fundur,  17. feb. 2011.

upplýsingalög.

381. mál
[13:56]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég vil í upphafi þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir að flytja þetta frumvarp. Ég held að fullt tilefni sé til að upplýsingalögin séu tekin til ákveðinnar endurskoðunar. Þau hafa verið í gildi, eins og hæstv. forsætisráðherra gat um, frá árinu 1997 og hafa gengt afar mikilvægu hlutverki. Það er ekki óeðlilegt að farið sé yfir ákveðin efnisatriði og lagatextinn skoðaður í ljósi reynslunnar, þeirrar þróunar sem hefur átt sér stað og hugsanlega að einhverju leyti í ljósi breyttra viðhorfa.

Upplýsingalögin hafa að mínu mati reynst vel í meginatriðum enda sér maður að helstu atriði laganna haldast óbreytt miðað við frumvarpið sem liggur fyrir. Ég held að þessi löggjöf hafi sannað gildi sitt. Um var að ræða ákveðinn áfanga í ferli sem hefur staðið yfir um alllangt árabil og felur í sér að gera stjórnsýslu landsins opnari, gagnsærri og um leið kannski formfastari en hún var löngum og er hægt að nefna ýmsa áfanga í því sambandi.

Við minnumst stofnunar embættis umboðsmanns Alþingis sem undir lok 9. áratugarins leiddi til verulegra breytinga og framfara, að mínu mati, hvað varðar stjórnsýsluna í meginatriðum. Annar áfangi var setning stjórnsýslulaga 1992 sem fól að miklu leyti í sér lögfestingu óskráðra meginreglna en hafði engu að síður í för með sér ákveðna vakningu hvað varðar mikilvægi þess að stjórnsýslan væri í föstum skorðum og að réttur borgaranna gagnvart stjórnvöldum væri tryggður. Þriðja áfangann sem hægt er að nefna eru þær breytingar sem áttu sér stað um svipað leyti hjá Ríkisendurskoðun og fólu í sér aukið sjálfstæði stofnunarinnar. Stofnunin var m.a. færð undir Alþingi frá fjármálaráðuneytinu og vegur hennar aukinn að mörgu leyti, bæði sjálfstæði og afl til að sinna verkefnum sem snúa að eftirliti með stjórnsýslunni.

Upplýsingalögin komu 1997. Þá varð miklu skýrara en áður hverjar skyldur stjórnvalda voru til að veita almenningi aðgang að upplýsingum um það sem fram fór á þeirra vegum. Ég fagna því að hæstv. forsætisráðherra skuli hafa beitt sér fyrir endurskoðun laganna og lagt fram það frumvarp sem liggur fyrir.

Ég ætla ekki að fara ítarlega í gegnum einstök efnisatriði málsins í þessari ræðu. Í andsvari vakti ég athygli á einu atriði sem ég tel að þurfi að skoða nokkuð vel í allsherjarnefnd. Það snýr að skilgreiningu og flokkun vinnugagna. Eins og ég nefndi áðan tel ég gagnlegt og mikilvægt að skýra nánar hvað átt er við með vinnugögnum. Ég ítreka það sem ég sagði, að um þetta atriði hefðu oft og tíðum orðið talsverðar deilur, ágreiningur milli borgara og stjórnvalda, fjölmiðla og stjórnvalda o.s.frv. og er engin ástæða til að fara nánar út í það. Þetta tel ég að verði kannski eitt af því mikilvægasta sem allsherjarnefnd þarf að skoða í þessu sambandi, þ.e. hvaða áhrif sú breyting sem hér er lögð til kemur til með að hafa.

Fyrir fram hafði ég, eins og ég lýsti áðan, ákveðnar áhyggjur af því að þarna kynni að vera útvíkkun á möguleikum stjórnvalda til að takmarka aðgengi að upplýsingum. Forsætisráðherra telur svo ekki vera og það kann að vera rétt, ég ætla ekki að leggja mat á það núna. Ég mun að sjálfsögðu innan allsherjarnefndar fylgja eftir þeim spurningum sem ég hef uppi um þau efni.

Varðandi önnur atriði ætla ég ekki að hafa mörg orð. Útvíkkun gildissviðs er lögð til hvað varðar stöðu einkaréttarlegra lögaðila t.d. sem þó eru að stórum hluta í eigu hins opinbera. Það er atriði sem ég tel að þurfi að skoða. Það er rétt að þegar opinber fyrirtæki í hlutafélaga-, einkahlutafélaga- eða jafnvel öðru rekstrarformi eru samkvæmt skilgreiningu einkaréttarlegs eðlis en engu að síður alfarið eða að langmestu leyti á hendi stjórnvalda þá eru oft og tíðum almannahagsmunir undir. Það er því full ástæða til að skoða þann þátt hvort upplýsingalögin eigi að gilda með sama hætti og almennt gerist um stjórnvöld. Ég ætla ekki að lýsa afstöðu til einstakra atriða í því sambandi. Ég fellst bara á að eðlilegt sé að skoða það og íhuga hvaða áhrif það komi til með að hafa. Stundum þegar einföld breyting á rekstrarformi leiðir til þess að menn koma til með að starfa í gerólíku umhverfi hvað varðar upplýsingarétt skýtur það óneitanlega dálítið skökku við og kallar á að fram fari skoðun á ákvæðum upplýsingalaga í því sambandi.

Þriðja atriðið sem ég ætlaði að nefna örstutt lýtur að málefnum starfsmanna. Það eru tvenns konar sjónarmið sem vegast á í því sambandi. Annars vegar er um að ræða rétt almennings til upplýsinga um atriði er varða meðferð opinbers fjár sem vega geysilega þungt og hins vegar sjónarmið er varða persónuvernd eða einkalífsvernd eða eitthvað þess háttar. Mér finnst ekki afdráttarlaust, án þess að hafa farið í gegnum þær vangaveltur til enda, eða sjálfgefið að jafnríkur upplýsingaréttur sé hvað varðar atriði í samningum við einstaka starfsmenn og í samningum um ýmsar aðrar ákvarðanir eða upplýsingar sem liggja hjá stjórnvöldum. Í mínum huga vegast tvenns konar sjónarmið á í því og ég tel að í ákveðnum tilvikum kunni að vera málefnaleg rök fyrir því að ekki séu galopnar upplýsingar um málefni einstakra starfsmanna, kjör og annað. Ég ætla ekki að kveða upp úr með það hvort sú leið sem farin er í frumvarpinu gengur eða ekki eða hvort ég styð hana eða ekki. Ég vek bara athygli á því sjónarmiði sem ég tel að þurfi að skoða í meðförum nefndarinnar.

Að lokum vil ég segja að það er almennt viðhorf að fyrstu breytinguna sem hæstv. forsætisráðherra gerði grein fyrir, breyting á markmiðsgrein frumvarpsins sem varðar markmið og tilgang hennar, megi að skaðlausu setja inn eða slíkt ákvæði. Ég tel hins vegar að það breyti ekki mjög miklu um réttarstöðuna. Ég legg meira upp úr skýrum efnisreglum en markmiðslýsingum sem eðli málsins samkvæmt hljóta alltaf að vera miklu meira túlkunaratriði.

Að þessu sögðu ítreka ég þakkir til hæstv. forsætisráðherra fyrir að flytja þetta frumvarp og ég held að það hljóti að verða skoðað með jákvæðum en gagnrýnum hætti á vettvangi allsherjarnefndar.