139. löggjafarþing — 75. fundur,  17. feb. 2011.

framkvæmd þjónustusamnings við Menntaskólann Hraðbraut.

380. mál
[16:02]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég ætla aðeins að blanda mér í þessa umræðu þó að málið sé reyndar þannig vaxið að maður viti varla hvar maður á að byrja — svo þungur áfellisdómur sem það er, annars vegar yfir skólastjórnendum og hins vegar yfir stjórnvöldum, í þessu tilfelli menntamálaráðuneytinu, sem átti að hafa eftirlit með þjónustusamningi við Menntaskólann Hraðbraut á umræddu tímabili.

Í mínum huga snýst þetta mál kannski um þrennt. Það snýst um inntak og gæði skólastarfs, það snýst um form skólastarfsins í landinu og það snýst um gæði stjórnsýslu. Þarna hafa allir þættirnir þrír brugðist. Þegar við skoðum skýrslu Ríkisendurskoðunar sjáum við að skólastarfið var ekki í samræmi við þá þjónustusamninga sem gerðir voru. Því var ekki fylgt eftir á þann veg sem til var ætlast þegar farið var af stað. Mér sýnist niðurstaða málsins algerlega skýr; farið var af stað í þetta mál meira af kappi en forsjá. Þarna virðist pólitískt gæluverkefni eða pólitísk velvild hafa verið á ferðinni og orðið þess valdandi að það slaknaði á eftirfylgni og innra gæðaeftirliti ráðuneytisins gagnvart þessu starfi.

Það eru líka vonbrigði að sjá að námsárangur nemenda Menntaskólans Hraðbrautar sem ráðuneytið síðan kannaði fyrir Ríkisendurskoðun í umfjöllun málsins, eftir að þeir nemendur voru komnir í háskóla, er slakari en meðalnámsárangur annarra nemenda við Háskóla Íslands. Það vekur vissulega spurningar um gæði skólastarfsins þrátt fyrir þá miklu fjármuni sem til skólans runnu. Það segir manni að ofeldið er ekki alltaf besta leiðin til að tryggja kraft, áræði og árangur.

Ég ætla ekki að eyða mörgum orðum í að ræða frammistöðu skólastjórnenda eða skólans sjálfs. Það hefur komið fram í umfjöllun um málið að ákveðin ánægja er meðal nemenda og metnaður hjá starfsfólki skólans. En það eru líka annmarkar á starfi skólans. Launastefna þar er ekki alveg í samræmi við það sem gerist og gengur og það kann að hafa komið niður á þróunarstarfi og öðru þannig að taka þarf sérstaklega á málefnum skólans þeim megin frá.

En það sem mig langar að ræða er frekar það sem lýtur að stjórnvöldum. Ábyrgð stjórnvalda í þessu máli er gríðarlega þung. Þarna átti sér stað fjáraustur og fyrir þann sem sjálfur hefur staðið á vettvangi á umræddu tímabili í skólastarfi, eins og ég gerði á þessum tíma, er mjög ergilegt að sjá hvernig þarna var farið með fjármuni. Á sama tíma var hart í ári hjá öðrum skólum landsins sem margir hverjir börðust í bökkum og börðust fyrir því að fá samþykkt og fá greidd eðlileg nemendaígildi til að geta haldið uppi eðlilegu skólastarfi. Minnst hefur verið á þessar 192 millj. kr. sem fóru í umframgreiðslur til Menntaskólans Hraðbrautar á þessum tíma. Það er ríflegt rekstrarframlag til heils framhaldsskóla á einu ári. Mig minnir að Menntaskólinn á Ísafirði hafi á þessu tímabili verið að fá í kringum 140–150 millj. kr. á ári, bara svo menn átti sig á því hvað fólst í upphæðunum.

Það er greinilegt að stjórnvöld hafa ekki rækt hlutverk sitt sem skyldi, þarna var illa farið með almannafé og ráðuneytið gætti á þessum tíma illa trúnaðar við hlutverk sitt sem vörsluaðili almannafjár. Ég tek hins vegar undir þá meginniðurstöðu hv. menntamálanefndar, sameiginlega meginniðurstöðu, að þetta mál kalli á heildarúttekt á öllum þjónustusamningum sem ráðuneytið gerði, og eiginlega þyrfti að gera heildarúttekt á öllum þjónustusamningum ríkisins sem gerðir hafa verið og eftirfylgni þeirra. Í framhaldinu held ég að sé alveg sýnt að stórherða þurfi reglur um rekstrarfyrirkomulag og rekstrarform einkarekinna skóla og stórherða eftirlit með framkvæmd þjónustusamninga og taka afgerandi afstöðu, stefnumótandi afstöðu, til þess hvaða viðmið eigi að gilda við rekstur slíkra stofnana.

Hér hefur verið minnst á það, og hefur komið fram í þessu máli, að Menntaskólinn Hraðbraut var rekinn í ágóðaskyni og eigendur greiddu sjálfum sér arð, meira að segja þó að rekstur skólans og fjárhagur stæði ekki undir því. Það er algerlega óásættanlegt þegar um er að ræða grunnþjónustu eins og skólastarf, heilbrigðisþjónustu eða annað sem telst til almennra mannréttinda, að slíkar stofnanir séu reknar í ágóðaskyni. Þar af leiðandi verð ég að gera ágreining við hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur þegar hún segir að það sé aukaatriði hvað um rekstrarafgang geti orðið í slíkum tilvikum. Rekstrarafgangur stofnana sem reknar eru fyrir opinbert fé og lúta að grunnþjónustu hlýtur að eiga að renna til stofnananna sjálfra og nýtast þannig gæðum þess starfs sem þar er innt af hendi.

Hér hefur líka verið minnst á rekstur opinberra skóla og framúrakstur. Hv. þm. Pétur H. Blöndal kom inn á það í máli sínu að þar þyrfti að taka til hendinni og undir það get ég tekið heilshugar. Pottur er nefnilega víða brotinn hvað það varðar og gera þyrfti heildarúttekt á því líka hvernig brugðist hefur verið við í þeim tilvikum þar sem skólar og ríkisstofnanir almennt fara ítrekað fram úr fjárframlögum. Ég er hrædd um að það skorti líka ákveðna heildarsýn á það hvernig með slíkt er farið.

Það sem þetta mál hefur kannski fyrst og fremst kennt okkur er að betra er að hafa forsjá en kapp þegar opinberum fjármunum er útdeilt. Það þarf að skoða þetta mál og nota það sem víti til varnaðar og sem tilefni til heildarendurskoðunar á þjónustusamningum við hið opinbera og endurskoðunar á eftirfylgni og viðbrögðum hins opinbera þegar vanhöld eru á því að staðið sé við fjárlög og staðið sé við kvaðir þjónustusamninga.