139. löggjafarþing — 75. fundur,  17. feb. 2011.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu.

471. mál
[16:59]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um að draga til baka umsókn Íslands að Evrópusambandinu sem við ræddum í gær en náðum ekki að klára umræðuna. Það verður því kannski slitrótt þegar menn koma daginn eftir og halda áfram þeirri umræðu sem var fyrir kvöldmat í gær.

Ég verð að segja, virðulegi forseti, að mér fannst umræðan í gær mjög merkileg að því leyti til að í henni sannast hversu misráðið var að fara í þetta umsóknarferli þegar margir hv. þingmenn og jafnvel hæstv. ráðherrar í stjórnarflokkunum eru ekki sammála um hvort við séum í aðildarviðræðum eða aðlögunarviðræðum. Nú ætla ég ekki að leggja neitt persónulegt mat á það en þetta segir kannski allt sem segja þarf um þá umræðu sem er. Ég held að við þurfum að gera meiri kröfur til okkar sjálfra þegar við fjöllum um einstök mál, hvort heldur það er þetta mál eða eitthvert annað, að menn séu í rökræðu, þ.e. að menn sletti ekki fram einhverjum fullyrðingum og séu að rífast og pexa um það sem á eiginlega að liggja klárt fyrir. Menn deila um hvort sú þingsályktunartillaga og það ferli sem nú er hafið í ljósi hennar og eftir samþykkt hennar sé ekki með þeim hætti. Ég var mjög hugsi yfir umræðunni í gær, virðulegi forseti, og ég ætla að staldra aðeins við það.

Það kom líka fram og enn og aftur fram í máli hv. þm. Ásmundar Einars Daðasonar að hæstv. forsætisráðherra hafi beitt kúgunum og þvingunum til að fá aðildarumsóknina samþykkta, hafi tekið menn inn í glerbúr og sent SMS-skeyti, sem hæstv. forsætisráðherra hefur reyndar borið af sér. Það er mjög dapurlegt að það skuli koma fram fullyrðingar um slíkt í þingsal frá stjórnarþingmönnum að hæstv. forsætisráðherra hafi hótað að slíta fyrstu vinstri stjórninni gangi þetta ekki eftir.

Það sem líka situr eftir eftir umræðuna í gær er kostnaðurinn vegna umsóknarinnar. Það er eitt af því sem við verðum að bæta úr. Hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir sagðist vera búin að fara yfir það og teldi hann vera 6–7 milljarða. Síðan kom hv. þm. Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar, og taldi hann vera 200 milljónir. Menn sjá að það er himinn og haf á milli í þessari vitleysu. Ég sit í fjárlaganefnd og það kom fram á fundi í haust með fulltrúum frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu að það þyrfti í rauninni að vera með sérstaklega eyrnamerkta peninga í ráðuneytinu upp á einhverja tugi milljóna króna vegna þeirra verkefna sem ráðuneytið þarf að sinna varðandi umsóknina, 40–50 millj. kr., þ.e. nokkrir tugir milljóna. En þeir eru ekki merktir þessu verkefni, þ.e. aðildarumsókninni að Evrópusambandinu, heldur er þetta gert með því að það ágæta fólk sem vinnur í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu sinnir þessum verkum og fær jafnvel ekki greitt fyrir þau, ég þekki það ekki alveg, en ef þetta er ekki eyrnamerkt í ráðuneytinu blasir við að þá sitja önnur verkefni á hakanum. Og það mætti hugsanlega færa fyrir því rök, af því að ég var að skoða skrána yfir þingmál sem hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra ætlaði að leggja fram á haustþinginu, hann ætlaði að leggja fram fimm frumvörp tengd landbúnaðarmálum, sum þeirra mjög mikilvæg og önnur ekki eins mikilvæg en eigi að síður er beðið eftir þeim. Ekkert þeirra var lagt fram á haustþinginu, ekkert af þessum fimm frumvörpum. Gæti skýringin á því hugsanlega verið sú að fólkið sem vinnur í ráðuneytinu sé að sinna öðrum störfum og þá bitni það á þessum? Ég er mjög hugsi yfir því. Ég ætla ekki að fullyrða að svo sé en þetta er eitthvað sem maður hlýtur að spyrja sig að.

Annað er líka mjög slæmt í þessu. Ef menn láta vinna fagvinnuna fyrir utan ráðuneytið, segjum sem svo að það komi samningur og hann verði samþykktur af þjóðinni og við göngum í Evrópusambandið þá er mjög slæmt að slík fagþekking sé ekki innan ráðuneytisins. Það blasir við öllum, alveg sama hvaða skoðun maður hefur á Evrópusambandinu sem slíku, að það er mjög slæmt ef fagþekkingin er ekki eftir í ráðuneytinu sjálfu sem síðan á að stýra málaflokknum.

Styrkjamálin komu líka til tals í umræðunni í gær, styrkirnir sem Evrópusambandið veitir vegna aðildarviðræðnanna. Það var upplýst, og við vitum það, að sumir ef ekki allir hæstv. ráðherrar Vinstri grænna vilja ekki þiggja þessa styrki og hafa gefið það út en síðan eru menn, og það kom fram í ræðu í gær, að fara einhverjar hliðargötur til að koma þessu inn í samninganefndina. Það er mjög óþægilegt að vita ekki hvað er hið rétta í málinu. Ég fullyrði ekki að svo sé en það kom fram í umræðunni í gær hjá einum hv. þingmanni sem ég tel að þekki þessi mál betur en ég. Það er mjög bagalegt að menn segi eitt og geri síðan annað og fari svo einhverjar hliðargötur til að koma þessu inn ef menn eru á annað borð á móti þessu. Það er líka mjög sérkennilegt að hæstv. ráðherrar skuli hafa hver sína skoðun á því hvernig þetta skuli gert, mjög sérkennilegt.

Síðan kom líka fram að Evrópusambandið væri að setja núna 160 millj. kr. í það að auglýsa og kynna ágæti sitt og það kom fram í umræðunni að þetta hefði verið boðið út og stofnun á vegum háskólans hefði gert tilboð í það. Ég er mjög hugsi yfir því ef svo er að stofnun á vegum háskólans sé að fara í þá vegferð að auglýsa Evrópusambandið og kynna ágæti þess vegna þess að mér finnst að þarna ætti að vera meiri gagnrýni á hvorn veginn sem það væri.

Síðast en ekki síst kom líka fram að búið væri að gera kröfur og menn færðu rök fyrir því að við værum í aðlögun en ekki aðildarviðræðum. Ég skal vera alveg hreinskilinn með það að ég átta mig bara á því, því að hér koma fullyrðingar í báðar áttir. Mér finnst mjög sérkennilegt að við skulum ekki einu sinni geta verið viss um hvort við erum í aðlögunar- eða aðildarviðræðum. Mér finnst það alveg furðulegt. (ÁÞS: Nema hvort tveggja sé.) Nema hvort tveggja sé, eins og hv. þm. Árni Þór Sigurðsson kallar fram í. Þetta staðfestir enn og aftur þau miklu mistök að það er engin pólitísk forusta um þetta mál. Það er mjög sérkennilegt að fara í slíka vegferð, sama hvaða skoðun menn hafa á inngöngu í Evrópusambandið. Reyndar vita allir hver mín skoðun er í því en ég ætla ekki að fara að ræða hana hér út af þessu máli.

Menn segja að færð séu rök fyrir því út af greiðslustofu landbúnaðarins, að Evrópusambandið hafi sagt að nú þurfi menn að fara í ákveðna verkferla til að breyta ákveðnum stofnunum landbúnaðarins til að aðlaga þær að Evrópusambandinu. Aðrir fullyrða að svo sé ekki, að það muni ekki verða gert, slíkt þurfi ekki að gera fyrr en samningurinn hefur verið samþykktur og það er þá í samræmi við þingsályktunina sem var samþykkt hér. Menn greinir á um þetta en þegar hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra heldur þessu fram sjálfur er maður dálítið villtur í umræðunni, maður veit ekki hverju maður á að trúa. Það er mjög sérkennilegt að við skulum enn vera á þessum stað eftir allan þennan tíma, ekki komin lengra í umræðunni um það hvar við erum stödd, hvort það sem verið er að gera samræmist þeirri þingsályktun sem var samþykkt eða hvort við eigum að reyna að fara eitthvað á svig við hana. Þetta er mjög sérkennileg umræða. En við ættum, virðulegi forseti, sama hvaða skoðun við höfum á Evrópusambandinu, að geta komist a.m.k. fram úr einföldum staðreyndum um málið. Ég tel það mjög mikilvægt.