139. löggjafarþing — 76. fundur,  22. feb. 2011.

aðildarumsókn að ESB og Icesave.

[14:42]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Fyrir fram hefði ég haldið að hæstv. utanríkisráðherra mundi fagna þeirri ákvörðun forseta Íslands sérstaklega að vísa Icesave-málinu til þjóðaratkvæðagreiðslu. Ástæðan eru hástemmdar yfirlýsingar hæstv. ráðherra á síðustu árum og missirum um mikilvægi þjóðaratkvæðagreiðslna í samfélagi okkar, einnig vegna þess að eins og við munum barðist hann eins og ljón fyrir því árið 2004 að fjölmiðlamálið gengi til þjóðaratkvæðagreiðslu og var á þeim tíma einn helsti varðmaður 26. gr. stjórnarskrárinnar og varðmaður málskotsréttar forsetans.

Ég hef hins vegar ekki greint mikinn fögnuð hjá hæstv. utanríkisráðherra við ákvörðun forseta Íslands. Það stafar kannski af yfirlýsingum sem hæstv. ráðherra gaf í Litháen á dögunum þar sem fullyrt og staðfest var að forsetinn mundi staðfesta Icesave-lögin en síðan kom í ljós að þær yfirlýsingar var ekkert að marka.

Áhrifamiklir hollenskir þingmenn lýst því yfir að Íslendingar geti gleymt því að gerast aðilar að Evrópusambandinu ef við göngumst ekki undir kröfur þeirra í Icesave-málinu og hafa með því sett mikinn þrýsting á íslensk stjórnvöld og ekki síst íslenskan almenning í tengslum við þá þjóðaratkvæðagreiðslu sem fram undan er og ég velti fyrir mér hvort sambærilegur þrýstingur hafi komið frá Bretum. Í kjölfarið spyr ég hæstv. utanríkisráðherra hvort líta megi þannig á að umsókn Íslands að Evrópusambandinu sé á einhvern hátt í uppnámi vegna yfirlýsinga hollensku stjórnmálamannanna. Mig langar líka til að spyrja hvort hægt sé að treysta því að í komandi þjóðaratkvæðagreiðslu verði (Forseti hringir.) þessum tveimur málum, Evrópusambandsmálinu og Icesave-málinu, ekki blandað saman og að áhugi hæstv. utanríkisráðherra á inngöngu Íslands í Evrópusambandið verði ekki drifkraftur þeirrar (Forseti hringir.) kosningabaráttu sem fram undan er og ég efast um að hæstv. utanríkisráðherra (Forseti hringir.) muni geta stillt sig um að taka þátt í því.