139. löggjafarþing — 76. fundur,  22. feb. 2011.

lögreglulög.

405. mál
[15:11]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Tilvitnunin „Loksins, loksins“ er úr umræðu um íslenskan rithöfund á 20. öld og var sem sé skoðun eins af menningarvitum þeirra tíma á þeim rithöfundi. Annar menningarviti sagði um þann rithöfund að það sem frá honum kæmi minnti á vélstrokkað tilberasmjör.

Nú skal ég ekki segja hvor einkunnin á hér betur við [Kliður í þingsal.] en þeirri staðhæfingu hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur verður þó að mótmæla að tafir á setningu Lögregluskólans þetta ár séu á nokkurn hátt Alþingi að kenna, allsherjarnefnd eða þeim sem hér stendur. Menn geta farið í gegnum 2. umr. málsins til að skoða það, ég skal fara í gegnum það hér í atkvæðaskýringu á eftir hvernig því háttar til. En ef einhver ber sök í þessu máli eru það aðeins starfsmenn hæstv. núverandi innanríkisráðherra, (Forseti hringir.) þáverandi dómsmálaráðherra, en hann kom með málið til afgreiðslu á síðasta eða næstsíðasta degi (Forseti hringir.) fyrir þinghlé, fól það formanni allsherjarnefndar til flutnings og allsherjarnefnd (Forseti hringir.) hefur staðið sig eins vel og hún hefur getað (Forseti hringir.) í því efni.