139. löggjafarþing — 76. fundur,  22. feb. 2011.

samkeppnislög.

131. mál
[16:04]
Horfa

Frsm. minni hluta viðskn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég bið hv. þingmann að misskilja mig ekki þannig að ég hafi verið í einhverjum meting við hana um hvort núverandi ríkisstjórn eða þær sem fyrir voru hefðu veitt meira fjármagn til Samkeppniseftirlitsins. Ég var bara að benda á að á umliðnum árum og missirum hafa stjórnvöld veitt aukið fjármagn til Samkeppniseftirlitsins og reynt að styðja við bakið á því í störfum sínum. Engu að síður blasir sú staðreynd við okkur að úrlausn þeirra mála tekur allt að fjórum árum. Verði þetta frumvarp lögfest er viðbúið að óbreyttu að sá tími sem fólk þarf að sæta rannsókn og málsmeðferðartími Samkeppniseftirlitsins í einstökum málum muni lengjast. Það stafar af því að með þessu frumvarpi verða samkeppnislögin gerð óskýrari, óljósari og það verður mjög erfitt (Forseti hringir.) fyrir stjórnendur og eigendur fyrirtækja að átta sig á því hvaða reglur gilda um rekstur þeirra.