139. löggjafarþing — 76. fundur,  22. feb. 2011.

samkeppnislög.

131. mál
[16:53]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Ég hef áður tekið til máls við umfjöllun um þetta mál í 2. umr. en mig langar aðeins við 3. umr. málsins að árétta nokkur atriði sem ég tel mikilvægt að komi fram í þingsal.

Í frumvarpi til breytinga á þessum samkeppnislögum er m.a. lagt til að Samkeppniseftirlitinu verði heimilt að skipta upp markaðsráðandi fyrirtækjum ef það getur sýnt fram á það með fullnægjandi rökum að staða þeirra á markaðnum feli í sér alvarlega röskun á samkeppni. Þetta er helsta álitamálið sem um er fjallað og ég ítreka að Samkeppniseftirlitinu er einungis heimilt að grípa til þessara aðgerða séu fullnægjandi rök til þess að staða viðkomandi fyrirtækja á markaðnum feli í sér alvarlega röskun á samkeppni.

Þegar fyrirtæki sem er í einokunar- eða yfirburðastöðu á markaði er skyldað til að selja hluta af fyrirtæki eða stofna ný fyrirtæki í samkeppni fær það fyrirtæki eða hluthafar þess hagnaðinn af sölunni eða eignarhlut í hinu nýja fyrirtæki. Fyrirtæki í einokunarstöðu fær þar af leiðandi endurgjald fyrir þær eignir sem afhentar eru hinum nýja samkeppnisaðila. Aftur á móti glatar fyrirtækið því verðmæti sem felst í einokunarstöðu sem samanstendur af þeim hluta fyrirtækisins, þ.e. eigninni sem látin er af hendi og þeim hluta fyrirtækisins sem eftir stendur. Að því leyti sem ákvörðun um uppskiptingu fyrirtækis skapar skilyrði fyrir virka samkeppni kynni hagnaðurinn af einokunarstöðu fyrirtækisins í heild, þ.e. samanlagðra eigna þeirra sem seldar eru og ekki seldar, að minnka úr því sem leiðir af einokunarstöðu niður í þann hagnað sem leiðir af virkri samkeppni. Það er mat þess sem hér stendur að það sé ekki ósanngjarnt að neita fyrirtæki um þann rétt sem hlýst af einokunarstöðunni og það er m.a. markmiðið með þessu frumvarpi.

Það skiptir máli í þessu sambandi að samkvæmt frumvarpinu verður heimild gefin til Samkeppniseftirlitsins að skipta upp fyrirtækjum en einungis ef ákveðin skilyrði eru uppfyllt. Samkeppniseftirlitið verður að sanna að skipulag eða uppbygging fyrirtækisins komi í veg fyrir, takmarki eða hafi skaðleg áhrif á samkeppni almenningi til tjóns. Þannig er staða almennings eða neytenda ætíð lögð til grundvallar og ég árétta að Samkeppniseftirlitið verður að sýna fram á það að neytendur hafi hag af því að viðkomandi fyrirtæki sé skipt upp því að við þekkjum það að oft getur komið til þess að hagkvæmara er fyrir neytandann ef fyrirtækin eru stór vegna þess að þá geta þau t.d. stöðu sinnar vegna keypt inn á hagkvæmari hátt og það getur leitt til betri stöðu neytenda. Ef það skilyrði er hins vegar ekki uppfyllt, og önnur skilyrði, er Samkeppniseftirlitinu heimilt að skipta upp fyrirtækinu. Um leið þarf Samkeppniseftirlitið að sanna að uppskipting fyrirtækisins sé í réttu hlutfalli við þær samkeppnishömlur sem stafa af stöðu fyrirtækisins á markaðnum og að vægari aðgerðir en uppskipting geti ekki náð sama árangri. Það er þessi ríka krafa um meðalhóf sem verður ætíð lögð til grundvallar.

Þess ber að geta í þessu sambandi að í frumvarpi sem varð að lögum árið 2002, samkeppnislögum, er rakið að sérstaklega sé brýnt að verja eða efla samkeppni í efnahagskreppum þar sem slíkt stuðlar að hraðari endurreisn atvinnulífsins almenningi til hagsbóta. Þá segir að líta beri til þess að landfræðileg einangrun landsins, fámenni og tilhneiging til myndunar fákeppnismarkaða feli í sér sterk rök fyrir því að hér á landi gildi mjög öflug samkeppnislög. Sökum þessa er það mat þess sem hér stendur að brýnt sé að styrkja samkeppnislögin og gera Samkeppniseftirlitinu enn frekar kleift að bregðast við alvarlegum samkeppnishömlum sem geta stafað m.a. af óhæfilegri samþjöppun á markaði og skaðlegri fákeppni. Þá getur það farið svo að markaðsstyrkur fyrirtækis og staða á markaði geti verið með þeim hætti að hún raski alvarlega samkeppni til tjóns fyrir neytendur og efnahagslífið í heild og uppskipting slíks fyrirtækis getur því verið ein leið af mörgum til að stuðla að því að almenningur njóti kosta virkrar samkeppni á mikilvægum markaði.

Að þessu sögðu vil ég, frú forseti, árétta að það er mat undirritaðs, þess sem hér stendur, að mikilvægt sé að frumvarp þetta verði að lögum. Það virðist vera mat minni hluta viðskiptanefndar að frumvarpið sé stórhættulegt fyrir atvinnulífið í landinu og setur fram rök því samfara í niðurlagi minnihlutaálits. Ég svaraði því að einhverju leyti í andsvörum fyrr í dag. Ég vil árétta að ef það er mat viðkomandi þingmanna að stór hluti íslenskra fyrirtækja þurfi að óttast þessa löggjöf þá eru viðkomandi þingmenn um leið að segja að þau hin sömu fyrirtæki séu í þannig stöðu, þ.e. í einokunarstöðu á kostnað virkrar samkeppni, á kostnað neytenda. Ég tel því að þau rök sem þar eru fram færð séu sterkustu rökin fyrir því að þetta frumvarp verði að lögum.