139. löggjafarþing — 76. fundur,  22. feb. 2011.

samkeppnislög.

131. mál
[16:59]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætlaði að gera athugasemdir við þrjú atriði í stuttri en skýrri ræðu hv. þm. Magnúsar Orra Schrams, fyrst um það síðasta sem hann sagði. Þegar löggjafinn setur matskenndar reglur eins og þessa inn í löggjöf felst auðvitað alltaf í því hætta á því að reglunni kunni að verða beitt með öðrum hætti en til var ætlast í upphafi. Þegar reglur eru settar sem fela í sér að opinberir aðilar, t.d. eftirlitsaðilar, fá mikið vald eru oft settar mjög skýrar reglur um það hvenær og hvernig þeir geta beitt slíku valdi.

Í fyrri umræðu um þetta mál hef ég einmitt vakið athygli á því að í þessu tilviki væri ekki um að ræða slíkar skýrar reglur um það hvenær nota ætti heimild af þessu tagi og hvenær ekki. Þess vegna er hið matskennda svigrúm stjórnvaldsins enn þá meira en algengt er, og algengast, þegar um er að ræða reglur um opinbert eftirlit eða opinber afskipti af einhverju tagi. Nægir að vísa til skattalaga og ýmissa annarra mikilvægra lagabálka þar sem mjög ítarlegar reglur eru um það hvenær hið opinbera stjórnvald getur beitt bæði íþyngjandi aðgerðum og þvingunaraðgerðum gagnvart þeim sem í hlut eiga.

Síðan vildi ég spyrja hv. þingmann hvort hann hefði ekki talið neina ástæðu til að taka mark á þeim ágætu sérfræðingum á sviði samkeppnisréttar sem komu fyrir nefndina. Vísa ég þar einkum (Forseti hringir.) til kennaranna í samkeppnisrétti í Háskólanum í Reykjavík og Háskóla Íslands.