139. löggjafarþing — 76. fundur,  22. feb. 2011.

samkeppnislög.

131. mál
[17:25]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni fyrir spurninguna. Hún er mikilvæg. Ég rakti það í minni stuttu ræðu áðan og vitnaði beint í greinargerð með frumvarpinu, sem er lögskýringargagn og litið verður til á komandi árum, að fyrir því sé séð í þessu máli að Samkeppniseftirlitið þurfi að líta til vandaðra vinnubragða, skilgreina viðkomandi markaði, leiða í ljós með skýrum hætti þær samkeppnishömlur sem um er að ræða og tryggja að eingöngu verði gripið til aðgerða sem eru í samræmi við þá háttsemi að brot hafi átt sér stað. Ég tel því að nefndin hafi litið til þess að hér væri um að ræða úrræði sem væru fullnægjandi í þeirri stöðu sem við erum. Þær ríku rannsóknarskyldur sem lagðar eru á Samkeppniseftirlitið eru algert lykilatriði í framkvæmd þeirra úrræða sem hér er verið að leggja til.