139. löggjafarþing — 76. fundur,  22. feb. 2011.

ferðamálaáætlun 2011--2020.

467. mál
[18:13]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég kem hingað upp til að fagna ferðamálaáætlun fram til ársins 2020 og brýna hæstv. ferðamálaráðherra til dáða í þeim efnum. Ferðaþjónusta er gríðarlegur vaxtarbroddur í atvinnulífi á Íslandi og ber að hlúa að henni með öllum tiltækum ráðum. Þessi atvinnugrein er að verða ein af meginstoðum íslensks atvinnulífs og er það vel, þess vegna þarf að vanda mjög til verka í allri áætlanagerð og aðkomu stjórnsýslunnar að málaflokknum.

Allar tölur í þessum málaflokki eru í eina veru. Fyrir aldarfjórðungi komu hingað 100 þúsund erlendir ferðamenn á ári, nánar tiltekið árið 1985. Sá fjöldi hefur fimmfaldast síðan. Fram til ársins 2020 förum við samkvæmt spá ferðamálayfirvalda úr 500 þúsund ferðamönnum upp í 1,2 milljónir ferðamanna. Þess vegna er gríðarlega mikilvægt atriði, frú forseti, að huga að því hvernig við getum tekið á móti auknum ferðamannastraumi. Hann tvöfaldaðist sum sé á tímabilinu 1985 til ársins 2010 og mun aftur tvöfaldast frá árinu 2010 til ársins 2020.

Sá sem hér stendur telur afskaplega brýnt af hálfu ráðuneytisfólks, hæstv. ferðamálaráðherra og ferðaþjónustunnar í heild sinni að hugað verði að því að fjölga áfangastöðum hér á landi. Horfi ég þar sérstaklega til staða eins og Eyjafjarðar sem hefur á að skipa fullbúnum millilandaflugvelli sem var verið að lengja og bæta fyrir upphæð sem nemur 1,7 milljörðum kr. Þá fjárfestingu ber að nýta mun betur, ekki síst í umhverfislegu tilliti (Forseti hringir.) til að dreifa álagi ferðamanna mun betur yfir landið en gert er.