139. löggjafarþing — 76. fundur,  22. feb. 2011.

ferðamálaáætlun 2011--2020.

467. mál
[18:23]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Í þessari þingsályktunartillögu segir í fyrstu línu að markmiðið með henni sé að auka arðsemi atvinnugreinarinnar. Ég held að það sé einmitt gríðarlega mikilvægt markmið að auka arðsemi í ferðaþjónustu. Til þess hljóta að vera mikil tækifæri vegna þess að innviðirnir eru sterkir, þjónustufyrirtækin eru fyrir hendi hvort sem þau eru hótel, veitingastaðir, bílaleigur eða ferðaþjónusta fyrirtækja sem sérhæfa sig í að taka á móti farþegum. Innviðirnir eru sterkir og góðir og því hlýtur að vera markmiðið að auka arðsemi greinarinnar þannig að fjölbreytni geti aukist og þessi fyrirtæki geti dafnað sem best. Þess vegna er ég hræddur við þá auknu gjaldtöku sem er boðuð á ferðaþjónustuna og tel að þar verði að fara mjög varlega, sérstaklega í ljósi þess að almennt séð hefur ferðaþjónustan ekki staðið svo sterkum fótum fjárhagslega að hún megi við ákveðnum ógnum. Ef við ætlum okkur að efla hana er þetta ekki leiðin til þess.

Markviss uppbygging áfangastaða er nefnd sem eitt af lykilatriðum. Það er klárlega eitt af þeim stóru verkefnum sem við þurfum að fara í. Til þess hefur verið stofnaður sérstakur sjóður sem verður hægt að veita fé úr til uppbyggingu ferðamannastaða, til að auk fjölbreytni og lengja ferðamannatímann. Í því getur falist mikill vaxtarbroddur fyrir atvinnugreinina.

Þá komum við aftur að því hvernig gjaldtökunni verður háttað gagnvart þessum sjóði. Ég hræðist aðferðafræðina sem boðuð er. Ég tel að það sé heppilegri leið, eins og ég kom inn á í umræðu áður, að skoða gjaldtöku á þeim ferðamannastöðum þar sem hún er möguleg fyrir þá sem þangað koma og að fjármunum sé síðan dreift til verkefna með öðrum hætti.

Það er nauðsynlegt fyrir vöruþróun að bæta aðgengi að ferðamannastöðum, auka öryggi ferðamanna og taka á móti þeim á fleiri stöðum yfir lengri tíma ársins en við erum í stakk búin til að gera nú.

Hér segir að íslensk náttúra sé auðlind ferðaþjónustunnar. Það er mikið rétt. Íslensk náttúra er í raun auðlind ferðaþjónustunnar, en íslensk náttúra er auðvitað auðlind þjóðarinnar. Um það höfum við oft rætt og með hvaða hætti renta þjóðarinnar eigi að vera af auðlindum. Við þurfum að fara í þá umræðu þegar gerðir verða upp þeir valkostir sem við höfum í nýtingu náttúrunnar, við þurfum að skera úr um hvaða greinar það eru sem skila mestum arði af auðlindum þjóðarinnar, þ.e. náttúruauðlindunum, hvort sem er til lands eða sjávar.

Ég held að það sé mjög mikilvægt í þessum efnum, virðulegi forseti, að við tökum tillit til allra sjónarmiða. Það er fín lína milli nýtingarþátta í náttúru Íslands, hvort sem er sjávarútvegsauðlindarinnar eða landsins gæða. Þá lítur maður kannski til orkufrekra framkvæmda og svo aftur samspils þess iðnaðar við ferðaþjónustu og hreina og ómengaða náttúru af framkvæmdum á þeim vettvangi. Við þurfum að feta hina fínu línu milli þessara nýtingarþátta. Það er mjög mikilvægt að í þeirri umræðu sé tekið tillit til arðseminnar, þ.e. hvaða greinar það eru sem skila þjóðinni mestum arði af auðlindum hennar. Andstæðingar orkufreks iðnaðar, þeir sem eru andvígir virkjunum, hafa frekar bent á að við þurfum að hafa óspillta náttúru til að sýna ferðamönnum og hefur verið ákveðin óbilgirni af þeirra hálfu í þeim málum.

Nauðsynlegt er að huga að sjálfbærni. Það þarf reyndar að skilgreina orðið sjálfbærni betur. Nú fjöllum við í iðnaðarnefnd um rammaáætlun. Þar kemur fram mikil gagnrýni og vangaveltur um orðið sjálfbærni frá umsagnaraðilum. Menn að segja að það þurfi að skilgreina það miklu betur og ég held að það sé mikilvægt fyrir okkur.

Líka er komið inn á lagaumhverfi og leyfismál. Það er mikilvægt til þess að ferðaþjónustan blómstri að við flækjum hana ekki í frumskógi of mikilla reglna og lagabálka. Við þurfum að byggja upp gagnsætt og einfalt kerfi laga, leyfisveitinga og skattkerfis. Það er viðurkennt í ferðaþjónustunni eða þeim greinum sem henni tengjast að allt of mikið er um svokallaða svarta atvinnustarfsemi. Það þarf að vinna bug á henni. Ég tel að heppilegasta leiðin til þess sé að einfalda skattlagningu og gjaldtöku í kringum atvinnugreinina og búa til hvata í skattkerfinu til að hún geti blómstrað, búa til hvata til nýfjárfestinga og uppbyggingar til að ferðaþjónustuaðilar á hvaða vettvangi sem er sjái sér hag í því að byggja upp öfluga þjónustu og fyrirtæki, njóti til þess einhverra ívilnana í skattkerfinu og um leið sjái þeir sér hag í því að starfa innan ramma laga og reglna þannig að skilin verði miklu meiri en áður. Þessu þarf að vinna að. Svört starfsemi er slæmur stimpill á þessari góðu og mikilvægu atvinnugrein.

Gagnasöfnun er líka mikilvæg. Við skipulagningu verðum við að gera markaðsáætlanir og þá er gagnasöfnun mikilvægur grundvöllur í þeim efnum. Við þurfum að greina á milli þróunar á markaðssvæðum okkar og þess hverju ferðamenn sækjast eftir. Gott dæmi um misskilning í þessu máli eru hvalveiðar Íslendinga. Aðilar innan ferðaþjónustunnar voru þeir sem höfðu hvað mest við það að athuga að við hæfum hér hvalveiðar og töldu að þær mundu skaða mjög þeirra ágætu atvinnugrein. Það hefur sýnt sig að hvalaskoðun hefur aukist mjög mikið í landinu, ferðaþjónustan hefur eflst og veitingastaðir keppast við að bjóða hvalkjöt á matseðlum sínum. Það sýnir okkur að hægt er að nýta og njóta á marga vegu. Margir í þessum geira og víðar mættu biðjast afsökunar á því hvernig þeir hafa talað og hagað sér í þessu máli.

Vöruþróun og nýsköpun markaðsmála er mikil. Vel hefur gengið að efla hér vetrarferðamennsku. Eins og kom fram áðan koma hingað 56% ferðamanna yfir vetrartímann og 44% yfir sumartímann. Oft er talað um Finna í þessu sambandi. Þeir ná um 60% yfir vetrartímann til sín og þykja hafa náð mjög góðum árangri. Grundvöllurinn að þessu er starfsemi Icelandair, þess gríðarlega þjóðhagslega mikilvæga fyrirtækis. Það er mikilvægt að hlúa að flugfélögunum og þá alveg sérstaklega Icelandair sem hefur með breytingum á leiðakerfi sínu og áætlunum gjörbreytt stöðu íslenskrar ferðaþjónustu. Þess vegna vara ég aftur við þeirri gjaldtöku sem fyrirhuguð er á þessa grein. Við verðum að fara okkur hægt og gera þetta í sátt við þá sem eru í greininni og finna einfaldar leiðir til að við sköðum ekki þessa gríðarlega miklu og merkilegu atvinnugrein og eflingu hennar.

Vel hefur tekist til. Ferðaþjónustan aflar mikils gjaldeyris fyrir þjóðina. Þess vegna er mikilvægt að hún eflist. Við höfum náð að auka mjög fjölda ferðamanna til landsins. Hingað komu 375 þúsund ferðamenn 2005, þeir fóru yfir 500 þúsund í fyrra.

Ljóst er að ferðaþjónustan er án nokkurs vafa ein af grunnstoðum íslensks atvinnulífs og gjaldeyrissköpunar í landinu. Þess vegna er mikilvægt að hún nái að dafna og eflast. Þegar horft er til þeirra áætlana sem liggja fyrir um að tvöfalda ferðamannastraum hingað á næstu tíu árum held ég að við eigum að ekki að líta eingöngu til magns heldur til gæða. Við eigum að selja okkur dýrt. Það er engin ástæða fyrir okkur að laða hingað ferðamenn sem skila ekki svo miklum arði og horfa þannig bara á þann fjölda sem hingað getur komið og við getum tekið á móti. Við eigum miklu frekar að leggja áherslu á að vanda til allra verka þannig að hingað komi viðráðanlegur fjöldi ferðamanna og náttúra landsins beri því engan skaða af. Við eigum að geta búið þannig um hnútana að (Forseti hringir.) vel sé á móti þeim tekið og öryggi þeirra sé fullnægt.