139. löggjafarþing — 77. fundur,  23. feb. 2011.

lögreglulög.

405. mál
[14:46]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Í gær kvaddi ég mér hljóðs um þetta mál við atkvæðagreiðslu (Gripið fram í.) og mátti skilja á orðum mínum að ég gerði lítið úr gagnrýni sem fram hefði komið á viðleitni þingmanna til að hafa áhrif á málið eða kynna sér það í þaula. Ég vil ekki skilja þannig við málið, enda var það ómaklegt af minni hálfu.

Staðreyndin er sú að þessi lög eru mikilvæg og snerta kjör fjölda manns, lögreglunema sem sækja Lögregluskóla ríkisins. Með frumvarpinu er í reynd verið að rýra kjör þeirra, færa kostnaðinn sem áður hvíldi á Lögregluskólanum yfir á herðar einstaklinganna sem nú þurfa að fjármagna sig með lánum frá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Þetta skiptir að sjálfsögðu máli og kallar á umræðu.

Hitt er annað mál að Lögregluskólinn og lögreglan eru því fylgjandi (Forseti hringir.) að færa þetta nám inn í almennan farveg annars náms í landinu og á þeirri forsendu tel ég þetta mál til góðs.