139. löggjafarþing — 77. fundur,  23. feb. 2011.

veggjöld og samgönguframkvæmdir.

[15:00]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F):

Frú forseti. Ég var einn þeirra mörgu þingmanna sem studdu það að fara í framkvæmdir á þeim forsendum sem hæstv. innanríkisráðherra rakti, að sérstök gjaldtaka yrði til að fjármagna þessar framkvæmdir. Ég held að stór ástæða þess að ekki hefur orðið úr framkvæmdum enn þá sé að dæmið var óskýrt og er enn þá óskýrt. Ég tek undir gagnrýni málshefjanda á það eitt og sér. Það er erfitt að fá fram hversu háir vegtollarnir eiga að vera og það kom t.d. ekki fram í máli hæstv. innanríkisráðherra áðan. Þegar ég greiddi atkvæði með því að fara í þessar framkvæmdir á umræddum forsendum var ég með tiltölulega lága vegtolla í huga, ég held kannski í kringum 70 kallinn eða 100 kallinn á hverja ferð frá Árborg til Reykjavíkur, ef ég man rétt. Síðan finnst mér eins og upphæðirnar hafi hækkað ískyggilega í umræðunni. Það er einföld og augljós ástæða þess að íbúar eru orðnir fráhverfir hugmyndinni um vegtolla. Það verður að setja dæmið þannig upp að það sé aðlaðandi fyrir íbúana. Þá verður að hafa í huga að íbúarnir borga nú þegar mjög há gjöld fyrir afnot sín af vegunum. Ef maður býr á Selfossi og keyrir til Reykjavíkur og til baka á bíl sem eyðir 10 lítrum á hundraðið rennur þúsund kall til ríkisins.

Gagnvart notendum veganna þarf auðvitað að setja það dæmi upp á sannfærandi og aðlaðandi hátt, að þeir eigi hugsanlega að borga smáupphæð tímabundið til að stuðla að mikilvægum vegaframkvæmdum. Ekki hefur tekist að gera það þannig að það birtist íbúunum sem aðlaðandi kostur.