139. löggjafarþing — 77. fundur,  23. feb. 2011.

prestur á Þingvöllum.

282. mál
[16:58]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég kveð mér hljóðs í tilefni af tillögu til þingsályktunar um prest á Þingvöllum á þskj. 325. Þingsályktunartillagan leggur áherslu á góða þjónustu við Þingvallakirkju. Það er mikilvægt og þakkarvert og sem formaður Þingvallanefndar vil ég endilega nýta þessa tillögu til að tryggja enn betur þau gildi sem fram koma í tillögunni en um leið láta koma fram að það bendir í reynd fátt til þess að illa sé staðið að málum við Þingvallakirkju. Tillagan sýnir góðan hug og stuðning við söfnuðinn, þessa fámennu byggð, sumarhúsaeigendur og aðra dvalargesti í þjóðgarðinum, ferðamenn bæði innlenda og erlenda og tekur mið af óskum þeirra sem koma til Þingvalla vegna trúar sinnar og þeirra tilfinninga sem menn bera til staðarins og leggur áherslu á að veita góða þjónustu því fólki sem þangað kemur til að gifta sig, til skírnar o.s.frv. fyrir utan almennar guðsþjónustur. Það er mjög mikilvægt að góð þjónusta sé við Þingvallakirkju. Það er mikilvægur þáttur í starfsemi þjóðgarðsins, bæði með hliðsjón af sögu staðarins og því fjölþætta hlutverki sem hann sinnir nú.

Ég get ekki látið þess ógetið að kirkjan sjálf er þjóðargersemi. Hún er friðuð og hluti af tilvist hennar er að þar sé lifandi trúarstarf. Kirkjan er hluti af bæjarmynd Þingvalla þar sem Þingvallabærinn stendur og kirkjan og bærinn eru staðareinkenni Þingvalla frá fornu fari.

Tillagan og greinargerðin gefa til kynna að ekki sé föst þjónusta við kirkjuna á Þingvöllum. Því er nú sem betur fer ekki þannig farið og Þingvallaprestur, séra Kristján Valur Ingólfsson, hefur greint frá fjölda messudaga og sérstakri þjónustu vegna annarra athafna. Ég verð að segja að mér sýnist sú þjónusta vera mikil. Söfnuðurinn hefur lagt mikla áherslu á að halda sókn sinni til Þingvallakirkju og hefur þannig látið til sín taka. Á fundi nær allra sóknarbarna var á sínum tíma samþykkt að sóknin, þ.e. Þingvallasókn, yrði ekki felld undir Mosfellsprestakall og ekki er vitað annað en ánægja sé með fjölda messudaga og þjónustuna við Þingvallakirkju að öðru leyti.

Til upplýsingar er rétt að geta þess að messað er í Þingvallakirkju hvern helgan dag frá því seint í maí til septemberbyrjunar, sem er háannatíminn. Messað er á öðrum tímum árs til jafnaðar einu sinni í mánuði og svo á stórhátíðum þar fyrir utan. Kvöldbænir eru í Þingvallakirkju öll fimmtudagskvöld í júní og júlí í framhaldi af fræðslugöngu þjóðgarðsins, tónleikar fjögur þriðjudagskvöld í júní og júlí í samvinnu við Minningarsjóð Guðbjargar Einarsdóttur frá Kárastöðum.

Frú forseti. Að mínu mati er heppilegast að leita til safnaðarins og kanna vilja hans hvað messudaga varðar og eins að Þingvallanefnd meti fyrir sitt leyti hvort þjónustan uppfylli þær þarfir sem eðlilegt er að telja sem hluta af starfsemi þjóðgarðsins. Ef þjónustan er ekki næg þarf að leita leiða til að auka hana en ég tel í reynd ekki tilefni mikilla breytinga á fyrirkomulagi þjónustunnar.

Núverandi sóknarprestur, séra Kristján Valur Ingólfsson, hefur að aðalstarfi verkefnisstjórn á sviði helgisiða og kirkjutónlistar á Biskupsstofu og er umsjónarmaður þjálfunar prestsefna og var reyndar einnig kennari við guðfræðideild Háskóla Íslands í hlutastarfi þegar hann hóf starf við Þingvallakirkju. Eins og ég gat um áðan er messað hvern helgan dag á sumrin og að jafnaði einu sinni í mánuði yfir vetrartímann sem þýðir að á árinu 2009 voru messur og guðsþjónustur á Þingvöllum 24 og þar af fjórar í umsjón gestapresta en það er liður í þeirri tillögu sem hér liggur fyrir. Þar er fermt, þar eru skírnir, hjónavígslur og bænastundir við kistulagningu. Það var fermt í júní árið 2009 og eins og ég sagði áðan voru gestaprestar fjórir og á árinu 2009 var einnig útimessa í Skógarkoti.

Hvað hagkvæmni varðar er núverandi fyrirkomulag væntanlega hvað best, þ.e. að prestur sinni öðrum störfum og komi til kirkjunnar þegar á að þjónusta, því að samgöngur eru nú orðnar þannig að ekki er lengra til Þingvalla en almennt gerist víða um land. Ef horft er til þjónustunnar eins og hún er nú og til núverandi prests á Þingvöllum verð ég að segja að hann hefur lagt gríðarlega mikið til starfsins. Ég hef orðið vör við mikla ánægju með þjónustu hans og honum hefur fylgt stór hópur söngvara og annarra tónlistarmanna í fremstu röð.

Ég hvet til þess að hv. allsherjarnefnd kanni viðhorf sóknarbarna og Þingvallanefndar til þeirrar tillögu sem hér liggur fyrir sem og auðvitað kirkjuyfirvalda og prestsins. En eins og ég sagði í upphafi sýnir tillagan góðan hug og stuðning við söfnuðinn en ég tel að það sé kannski ekki nægilegt tillit til þess tekið hversu góð sú fasta þjónusta er sem nú er við kirkjuna á Þingvöllum.