139. löggjafarþing — 77. fundur,  23. feb. 2011.

prestur á Þingvöllum.

282. mál
[17:10]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég vil tryggja eins vel og ég mögulega get að það misskiljist ekki sem ég sagði áðan. Ég lagðist að sjálfsögðu ekki gegn því að sú þjónusta sem nú er á Þingvöllum yrði aukin því að alltaf má bæta hana. Og það má alltaf fjölga messudögum. Svo sannarlega held ég að flestir mundu þiggja að það yrði mokað þarna í hverri viku yfir vetrartímann. Þar fyrir utan þarf væntanlega bara að semja við prestinn og tryggja organistanum laun til að hægt sé að halda þarna úti bættri þjónustu. Ég tel að þessi þingsályktunartillaga geti orðið til þess.

Mitt erindi í ræðustól var aðeins að vekja athygli á þeirri góðu og föstu þjónustu sem fyrir er á staðnum. Hvað varðar Þingvallakirkju er eðlilegt að geta þess að í tilefni af 150 ára afmæli kirkjunnar 2009 ákvað kirkjuráð að leggja kirkjunni til 9 millj. kr. til að hægt væri að lagfæra aðkomuna að kirkjunni. Kirkjugarðasjóður veitti einnig fjármagn til að hlaða upp kirkjugarðsveggi og fjárframlag frá þjóðgarðinum fyrir tilstyrk Þingvallanefndar varð svo til þess að hægt var að ljúka útivinnunni og setja upp nýja lýsingu.

Það er enn mikið verk óunnið við kirkjuna sjálfa til að ljúka viðgerðinni. Til að hún megi vera jafnfögur og kostur er þarf vissulega sérstakt átak. Þjóðgarðsvörður, Þingvallaprestur og forstöðumaður húsafriðunarnefndar hafa átt fundi til þess að fylgja eftir fyrri samþykktum um skipulag og endurbætur á kirkjunni og undirbúa umsókn þar um til húsafriðunarsjóðs.

Vegna þess sem hv. þingmaður sagði um gæslu kirkjunnar vil ég að það komi fram að Þingvallaprestur hefur komið á fót 13 manna hópi sjálfboðaliða sem skiptir með sér störfum þannig að það eru aldrei færri en tveir slíkir meðhjálparar að störfum hverju sinni og að lágmarki á sunnudögum frá kl. 11 til 16 alla þrjá sumarmánuðina, júní, júlí og ágúst. Þetta er gert til að létta undir með landvörðum sem hafa mikið á sinni könnu.

Ég tel að það verði vandalítið að fjölga messum í Þingvallakirkju telji menn þess þörf og legg aftur áherslu á að það má alltaf gera betur en þó er gert.