139. löggjafarþing — 78. fundur,  24. feb. 2011.

staða íslenskrar tungu og íslensks táknmáls.

533. mál
[11:30]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Frú forseti. Það er ekki oft sem maður getur komið í ræðustól þingsins og sagt að sögulegum áfanga sé náð. En þannig er mér þó innanbrjósts í dag og ég tel að þetta frumvarp verðskuldi þá einkunn. Þetta er afar mikilvægur áfangi fyrir okkur öll, fyrir íslenska þjóð, en ekki síður fyrir tiltekna mikilvæga hópa í samfélagi okkar, sem eru heyrnarlausir, heyrnarskertir og daufblindir annars vegar og hins vegar þeir aðilar sem kallaðir eru einu orði innflytjendur, íslenskir ríkisborgarar af erlendum uppruna og erlendir ríkisborgarar sem kosið hafa að setjast að í landi okkar.

Þetta er í einhverjum skilningi menningarmál, velferðarmál og mannréttindamál. Við vitum öll hve mikilvægur aðgangur að íslensku samfélagi það er að hafa vald á íslenskri tungu og við þurfum að taka mjög alvarlega það hlutverk okkar að gera það sem í okkar valdi stendur til að tryggja að einstakir hópar séu ekki hliðsettir í samfélagi okkar vegna þess að þeim er ekki tryggður þessi aðgangur eða þetta tæki sem menn þurfa að nýta til að geta lifað mannsæmandi lífi.

Hæstv. menntamálaráðherra fór yfir aðdraganda þessa máls, þá þingsályktun sem samþykkt var á Alþingi 2009, um íslenska málstefnu. Ég vil bæta því við að aðdragandinn er talsvert lengri í þingsögunni og rétt er að viðurkenna sérstaklega hlut hv. þm. Marðar Árnasonar sem var 1. flutningsmaður að þingsályktunartillögu um athugun á réttarstöðu íslenskrar tungu sem lögð var fram á 130. löggjafarþingi, en náði ekki fram að ganga. Þar eru margir af þeim lykilþáttum sem koma fram í þessu frumvarpi.

Í kjölfar samþykktar þingsályktunartillögu árið 2009 setti hæstv. menntamálaráðherra á fót nefnd um lagalega stöðu íslensku tungunnar og táknmálsins. Guðrún Kvaran var þar formaður og vinna þeirrar nefndar er mikilvæg forsenda fyrir því frumvarpi sem hér er lagt fram.

Það er mikilvægt í þessari umræðu að við viðurkennum að viðgangur íslenskunnar er ekki náttúrulögmál. Þó að vissulega sé það svo að ekki eru beinir keppinautar um stöðu íslenskunnar sem þjóðtungu í okkar samfélagi er hins að gæta að íslenskan verður fyrir talsvert mikilli ágengni. Nauðsynlegt er að tryggja að íslenskan verði ekki nátttröll á komandi áratugum, tungumál forfeðra okkar fyrst og fremst sem glatar í einhverjum skilningi tengingu við nútímasamfélag þar sem örar þjóðfélagsbreytingar eru reglan og áreiti frá alþjóðlegu tungunum, sérstaklega ensku, er allt að því yfirþyrmandi, ekki síst fyrir þær kynslóðir sem eru að vaxa úr grasi. Þess vegna er þetta frumvarp mikilvægt, það er brýnt og það hefur sérstaka vísun í það samfélag sem við byggjum í dag.

Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um frumvarpið á þessu stigi, menntamálanefnd mun fá það til umfjöllunar. En ég vek þó athygli á ákveðnum þáttum sem ég tel að við þurfum að skoða sérstaklega. Ég vil sérstaklega draga þar fram 5. gr., um skipan Íslenskrar málnefndar. Ég velti því upp hvort mikilvægt sé að skapa ákveðnar tengingar á milli Íslenskrar málnefndar og Málnefndar um íslenskt táknmál, sem sömuleiðis á að setja á fót, þannig að þeir mikilvægu hópar, heyrnarlausir, heyrnarskertir og daufblindir, eigi rödd í þessari viðamiklu nefnd um Íslenska málnefnd sem er skipuð 18 fulltrúum ýmissa hópa. Ég geri enga athugasemd við þá hópa sem þar eru nefndir til sögunnar en tel sem sagt að það verðskuldi skoðun hvort þessi hópur sem ég nefndi og sömuleiðis innflytjendur eigi að eiga sína fulltrúa í þessari nefnd sem á að fjalla um stöðu íslenskrar tungu á fræðilegum grundvelli, gera tillögur til ráðherra um málstefnu og álykta árlega um stöðu íslenskrar tungu.

Í frumvarpinu kemur sömuleiðis fram mikilvægt markmið, mikilvæg skilaboð til ríkis og sveitarfélaga, til hins opinbera, um framsetningu á íslenskunni. Það eru skilaboð sem við þurfum öll að taka alvarlega og til okkar, bæði hér á löggjafarþinginu og handhafar framkvæmdarvaldsins á hverjum tíma. Þetta eru markmiðin um að íslenskt mál, það mál sem notað er í starfsemi ríkis og sveitarfélaga, skuli vera í senn vandað, einfalt og skýrt. Mér er þetta ofarlega í huga núna þegar við erum að fjalla um frumvarp til fjölmiðlalaga í menntamálanefnd. Þar hefur talsverður tími farið í að ræða skilgreiningar sem eru nauðsynlegar í frumvarpi af því tagi en það verður að segjast eins og er að ýmislegt sem þar er innanborðs fellur trauðla að hinum ágætu markmiðum um vandað, einfalt og skýrt mál. En það er verkefni nefndarinnar að hafa það í huga við lokaafgreiðslu á fjölmiðlafrumvarpinu þegar við erum komin með þetta mikilvæga mál í hendurnar um íslenska tungu og táknmál. Ég vil að lokum óska hæstv. menntamálaráðherra til hamingju með framlagningu þessa máls hér í dag.