139. löggjafarþing — 78. fundur,  24. feb. 2011.

Landsvirkjun.

188. mál
[12:15]
Horfa

Frsm. efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Hér er um sama álitaefni að ræða og var í umfjöllun um ríkisábyrgðir undir fyrri dagskrárlið. Hér er verið að gera breytingar á lögum um Landsvirkjun sem er sameignarfyrirtæki og hefur sem slíkt haft ábyrgð eiganda síns, íslenska ríkisins, ótakmarkað á öllum skuldbindingum félagsins. Vegna þess að Landsvirkjun hefur verið og er sameignarfyrirtæki eru allar skuldir á ábyrgð eigandans ef Landsvirkjun getur ekki staðið í skilum með þær. Hér er verið að breyta því fyrirkomulagi þannig að Landsvirkjun sé rekin með takmarkaðri ábyrgð en ríkið þurfi hverju sinni að ábyrgjast sérstaklega þær lánveitingar sem ríkisábyrgð eigi að vera á. Eftir sem áður verður langstærsti hluti skuldbindinga Landsvirkjunar væntanlega með ábyrgðum ríkisins, en formsins vegna og vegna Evrópureglnanna er þessi framkvæmd eðlilegri enda komi eðlilegt gjald fyrir hina skýrt afmörkuðu ríkisábyrgð í þessu tilfelli og samkvæmt lögunum um ríkisábyrgðir sé það metið af óháðum þar til bærum aðila hvert eðlilegt endurgjald komi þar fyrir.

Það álitaefni sem helst kom til umfjöllunar í efnahags- og skattanefnd við afgreiðslu þessa máls var í sjálfu sér fyrirbærið sameignarfyrirtæki með takmarkaðri ábyrgð. Sameignarfélög eru félög með ótakmarkaðri ábyrgð eigenda sinna og hlutafélög eru félög með takmarkaðri ábyrgð. Ábyrgðin takmarkast þá við félagið nema eigendurnir hafi sérstaklega gengist í ábyrgð fyrir skuldbindingum. Voru uppi sjónarmið um að með þessari breytingu á ábyrgð ríkisins á skuldbindingum Landsvirkjunar væri í raun að meira leyti horfið til þess forms og þeirra reglna sem gilda um hlutafélög.

Til hins verður þó að líta að Orkuveita Reykjavíkur og Landsvirkjun eru hvorki né hafa verið sameignarfélög eða hlutafélög. Þau eru sameignarfyrirtæki og starfa eftir sérstökum lögum. Þar er nánast kveðið á um réttindi og skyldur þeirra félaga og það er álit fjármálaráðuneytisins að fyrir utan þau ákvæði sem hér er um að ræða, um að sérstaklega þurfi ábyrgð ríkissjóðs á þeim skuldbindingum sem ábyrgð eigi að fylgja, muni að öðru leyti fara sem áður um sameignarfyrirtæki þessi eftir þeim rétti og þeim reglum sem gilda um sameignarfélög að öðru leyti.

Meiri hluti nefndarinnar leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeirri breytingu einni að lögin öðlist þegar gildi.