139. löggjafarþing — 82. fundur,  28. feb. 2011.

viðbrögð ríkisstjórnarinnar við hækkandi olíuverði.

[15:52]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Erlendar verðhækkanir á olíu, hrávörum og matvöru eru sannarlega áhyggjuefni fyrir íslenskt hagkerfi, m.a. vegna þess að þær geta tekið með sér verðbólguþrýsting innan lands, verðhækkanir er leiði til verðbólgu. Við vitum öll að við búum við þær sérstöku aðstæður að vera í verðtryggðu samfélagi, mjög skuldsettu sem við erum nýbúin að endurskipuleggja. Við verðum þess vegna að vera mjög vakandi fyrir þessum verðhækkunum og vera í færum til að bregðast við þeim, til að þær leiði ekki til verðbólgu og víxlverkandi hækkana skulda og launa sem við þekkjum frá fyrri tíð og hafa haft ógæfu í för með sér í hvert eitt sitt fyrir íslenskt hagkerfi.

Hér þarf m.a. að fara yfir verðhækkanirnar á bensíni og olíu sérstaklega og ég fagna þeim áherslum fjármálaráðherra sem komu fram um að skipa hóp til þeirra verka. Ég tek undir að auðvitað er þetta ekki viðfangsefni sem við getum leyst á morgun. Staðan er erfið. Það er einfaldlega ekki hægt, eins og einn hv. þingmaður hélt fram, að falla frá skattheimtu ríkissjóðs. Ríkissjóður hefur engin efni á því og það vita allir sem hafa augun opin í íslensku samfélagi. Við eigum samt að horfa á þetta sem tækifæri, við framleiðum meiri endurnýjanlega orku en nokkur önnur þjóð og við eigum að auka það, sækja fram og halda áfram að hvetja til notkunar á metani, taka litla varmadælufrumvarpið og skoða það með jákvæðum huga og allt það annað sem við getum gert til að gera okkur óháðari jarðefnaeldsneyti en við erum nú. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)