139. löggjafarþing — 82. fundur,  28. feb. 2011.

aðgerðaáætlun stjórnvalda gegn mansali.

526. mál
[17:13]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Þetta var einmitt sú aðgerð sem ég náði ekki að fjalla um en ætlaði að gera á ítarlegan hátt, þ.e. aðgerð 13: Heimildir lögreglu til forvirkra rannsókna verði metin og áhersla lögð á að nýta til fulls rannsóknarheimildir sakamálaréttarfars.

Þetta hefur ekki enn komið til framkvæmda en mér er óhætt að segja að þetta er allt saman í athugun og í vinnslu. Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir hefur lagt fram frumvarp, fer þar fyrir fjölda þingmanna, þar sem hvatt er til þess að ráðist verði í forvirkar rannsóknir sem svo eru nefndar til að uppræta þennan hryllilega glæp, sem er sala á mannfólki, á manneskjum. Auðvitað vil ég ekki láta mitt eftir liggja til að taka á slíku á markvissan hátt. Þar tek ég því undir með forvera mínum, Rögnu Árnadóttur, að ég vil styðja og styrkja lögregluna í hvívetna í þeirri viðleitni.

Samhliða þessu vil ég að sjálfsögðu að við stígum mjög varlega til jarðar, höfum allan vara á og eftirlit og dómsúrskurði ef þörf er á. Þetta er umræða sem fer núna fram innan ráðuneytisins og við lögreglu. Við erum að skoða með hvaða hætti við getum spornað við þessum glæpum og reyndar öðrum líka. Við eigum yfir höfði okkar aðkomu glæpagengja sem sum hver hafa því miður verið að skjóta rótum í samfélagi okkar. Ekkert af þessu viljum við sjá (Forseti hringir.) en ég veit að við erum samherjar í því, ég og hv. þm. Siv Friðleifsdóttir, að við viljum jafnframt standa vörð um réttarríkið og mannréttindin í hvívetna.