139. löggjafarþing — 82. fundur,  28. feb. 2011.

þróun fóstureyðinga.

527. mál
[17:26]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Það er svo sem ekki miklu við þetta að bæta. Það er forvitnilegt að skoða tölurnar sem birtar eru varðandi fæðingatíðnina. Þrátt fyrir að fæðingatíðni hafi lækkað um helming frá 1960 til 2009 þar sem meðalfjöldi barna var fjögur börn og er nú kominn í 2,2 — hún hækkaði reyndar örlítið á síðustu árum — eiga Íslendingar enn flest börn hlutfallslega, fæðingatíðnin er einna hæst á Íslandi af öllum Evrópuríkjum. Ég held að það þurfi að fara til Tyrklands ef leita á að svipuðum fæðingafjölda.

Það er mikilvægt fyrir okkur að fylgjast með slíku í tengslum við velferðarkerfi okkar. Við viljum gjarnan að þjóðin stækki til að við getum staðið undir velferðarkerfi okkar og svo ekki verði fólksfækkun eins og gerst hefur í sumum löndum Evrópu. Við þurfum að standa vaktina varðandi t.d. fæðingarorlofið sem er klárlega ein af forsendunum fyrir því að búið sé vel að barnafólki. Við höfum höggvið í það orlof og þá skiptir miklu máli að fylgjast með hver áhrifin verða. Um það er væntanleg skýrsla fljótlega frá ráðuneytinu þar sem við reynum að greina þá stöðu og við verðum að taka niðurstöðurnar til okkar og draga af þeim lærdóm fyrir frekari fjárlagagerð á næstu árum.

Það er mjög fróðlegt fyrir okkur að gera samanburð við Norðurlöndin. Mikilvægt er að aðferðin sem við notum á hverjum tíma við tölfræðilegar upplýsingar, hvort sem það er varðandi fóstureyðingar, fæðingatíðni eða annað, sé samræmd á milli ólíkra landa og að stofnanir eins og landlæknisembættið gæti þess að fara eftir þeim lögum og reglum sem þar gilda þannig að tölurnar séu sem áreiðanlegastar á hverjum tíma.

Umræðan er mjög góð og við munum að sjálfsögðu fylgjast með en eins og ég segi hefur ekki verið talin ástæða til að grípa til neinna sérstakra aðgerða vegna (Forseti hringir.) skýrslu velferðarráðuneytisins.