139. löggjafarþing — 82. fundur,  28. feb. 2011.

vottunarkerfi um jafnrétti á vinnumarkaði.

528. mál
[17:39]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Það er rétt sem hér er sagt að það hefur verið fullmikil bjartsýni að reyna að ná þessu á þeim tíma sem settur var upp í byrjun, sérstaklega af því að samkomulag náðist um að fara þá formlegu leið að fara í gegnum Staðlaráð Íslands. Þá getur það orðið á þann veg að fyrirtæki geta dregið fram þann styrkleika að þau séu með vottað kerfi til að hindra launamun. Ég held að það sé afar spennandi leið en vil þó taka undir með hv. þingmanni og málshefjanda að auðvitað þarf að halda áfram að skoða aðra þætti sem nefndir voru þarna, bæði starfsmatið og vöktun upplýsinga, að fylgjast með hver þróunin er á hverjum tíma.

Í þessari jafnréttisáætlun er einmitt get ráð fyrir því að menn herði þessa eftirfylgni í gegnum jafnréttisfulltrúa m.a. í ráðuneytum þar sem kallað verði eftir því að viðkomandi skoði reglubundið og með skipulögðum hætti hvernig launamálum kynjanna er háttað til að tryggja að einhver óskilgreindur kynbundinn launamunur verði ekki til, þ.e. umfram það sem verið hefur. Við þurfum auðvitað að eyða slíkum mun algjörlega. Það er ekkert sem réttlætir að kynin séu meðhöndluð með ólíkum hætti hvað þetta varðar.

Ég vil bara þakka málshefjanda, Siv Friðleifsdóttur, fyrir að taka þetta mál upp og hvet hana til að halda okkur við efnið þannig að við stöndum vaktina og reynum að fylgjast með því að þetta mál gangi fram eins og lagt er upp með hér. Og ég vona að það að takist að ná þessum staðli á þessu ári.